Halla Sigtryggsdóttir fæddist í Reykjavík 7. júlí 1933. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 27. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Vilhelmína Þórdís Vilhjálmsdóttir, ættuð frá Reykjum á Skeiðum, og Sigtryggur Eiríksson frá Votumýri á Skeiðum. Þau áttu, auk Höllu, soninn Vilhjálm og dótturina Þórdísi. Makar þeirra eru Herdís Guðmundsdóttir og Hörður Halldórsson. Halla giftist árið 1953 Baldri G. Bjarnasen flugvirkja og eignuðust þau fjögur börn saman, Þórdísi, Óskar, Sigtrygg og Guðjón Þór.
Þórdís er gift Gísla Guðmundssyni og eiga þau fjögur börn, tvíburana Arndísi og Höllu og Rannveigu og Stefán Örn. Óskar er kvæntur Sigrúnu Birgisdóttur og eiga þau tvær dætur, Söru og Þórdísi. Sigtryggur er kvæntur Sigrúnu Hrafnsdóttur og eiga þær dæturnar Unu og Eyrúnu. Guðjón Þór er ókvæntur.
Strax eftir giftinguna settust Halla og Baldur að í Kópavogi og áttu þar lögheimili, lengst af í Laufbrekku 13, en árið 2000 fluttust þau til Blönduóss, þar sem dóttir þeirra hefur búið síðustu 12-13 árin.
Á sjöunda áratugnum bjó Halla ásamt fjölskyldu sinni nokkur ár í Stavanger í Noregi og síðan í byrjun áttunda áratugarins á Long-Island í New York í þrjú ár. Var þetta vegna starfs eiginmannsins. Öll þessi ár var Halla fullstarfandi húsmóðir, enda börnin á öllum aldri.
Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum starfaði hún þó nokkuð innan K.F.U.K. og stjórnaði unglingastarfinu í Kópavogi. Einnig gerðist hún félagi í Soroptimistaklúbbi Kópavogs 1981 og starfaði þar til þess tíma, er hún flutti til Blönduóss. Innan þess klúbbs gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum, sem sé ritari stjórnar og eitt tímabil sem formaður.
Árið 1987 innritaðist hún í Fósturskóla Íslands og lauk þaðan prófi 25. maí 1990. Starfaði hún síðan á hinum ýmsu barnaheimilum í Kópavogi um nokkura ára skeið.
Útför Höllu fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Mig langar að minnast tengdamóður minnar í örfáum orðum. Mín kynni af Höllu hófust fyrir þrjátíu og tveimur árum. Okkar samband var mjög gott, pínulítið var hún tortryggin í byrjun en það var nú bara eðlilegt. Við urðum góðir vinir.
Mér varð fljótt ljóst að Halla var mjög vel gefin kona og skörp, svo að manni fannst stundum nóg um. Því að ég fékk það á tilfinninguna að hún læsi hugsanir manns.
Höllu þótti alltaf gaman að læra. Hún lauk nokkrum stigum í píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs. Ákvað hún síðan fimmtíu og fjögra ára að hefja nám í Fóstruskólanum sem hún lauk með stæl og var elsti nemandinn sem útskrifast hefur frá skólanum. Síðan starfaði hún sem fóstra í Kópavogi í nokkur ár.
Það var öllum ljóst sem kynntust þeim hjónum að þau voru mjög samrýnd. Þau fluttust víða vegna starfa manns hennar og bjuggu nokkur ár erlendis bæði í Noregi og Bandaríkjunum. Það kom mörgum á óvart þegar þau ákváðu að flytjast norður í land fyrir þremur árum. Það var mjög ánægjulegt fyrir mig og mína fjölskyldu að þau skyldu gera það en árin urðu færri en ætlað var. Fyrir fjórum mánuðum greindist hún með krabbamein sem hún lést úr. Mig langar til að kveðja hana með þessu versi sem hún söng oft fyrir börnin mín:
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(S. Egilsson)
Missir þinn er mikill, Baldur minn. Guð gefi þér bæði trú og styrk.
Gísli Guðmundsson.
Ég var 15 ára þegar ég kynntist syni hennar, Óskari, og hann var 19 ára. Mér var strax vel tekið þó að Baldri tengdapabba hafi fundist ég fullung og orðið mjög feginn þegar ég náði 16 ára aldri. Ég tók fljótlega eftir að samband Höllu og Baldurs einkenndist af einskærri ást og virðingu þeirra á milli sem og gagnvart börnum þeirra. Hún var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd eins og þegar Sara okkar fæddist, við ung og í skóla, þá gætti hún hennar nær daglega. Þegar Óskar fór í nám tveimur árum seinna kom hún með okkur og var í nokkra daga til að hjálpa unga fólkinu í framandi landi. Ég þakka fyrir þau ár sem ég átti með Höllu. Blessuð sé minning hennar.
Sigrún (Dúra).
Það var margt sem við lærðum af henni ömmu, hún var meðal annars ávallt tilbúin að hjálpa okkur við ýmiskonar handavinnu og alltaf var hún þolinmóð þótt við værum klaufskar í byrjun. Eins var alltaf hægt að finna eitthvað flott í skápunum hjá henni sem hún leyfði okkur að nota.
Þegar við vorum yngri leyfði hún okkur að leika með skartgripina sína og okkur þótti það mjög gaman. Þá átti amma mikið og flott hattasafn sem okkur fannst gaman að leika með og brá hún oft á leik með okkur.
Amma kenndi okkur marga söngva í gegnum tíðina og söng hún mikið með okkur þegar við vorum yngri í bílnum. Einnig var það fastur liður þegar við gistum heima hjá þeim afa, að amma söng fyrir okkur áður en við fórum að sofa.
Við eigum eftir að sakna ömmu Höllu mikið en við vitum að hún er á góðum stað núna. Minning hennar mun ávallt vera hjá okkur. Með þessari bæn sem við sungum oft saman viljum við kveðja hana ömmu okkar.
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)
Elsku afi, missir þinn er mikill. Guð gefi þér styrk og trú á þessum erfiðu tímum og það munum við líka gera.
Arndís, Halla og Rannveig Gísladætur.
Mig langar til að kveðja hana ömmu með þessari bæn.
Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)
Stefán Örn Gíslason.
Blessuð sé minning ömmu minnar.
Sara.
Ég man þegar ég var lítil hversu góð hún var alltaf við mig og öll barnabörnin. Það var svo spennandi að gista heima hjá henni og afa. Hún leyfði mér að fara í gömlu ballskóna sína síðan hún var ung og máta alla skartgripina. Þetta var svo gaman því hún lét mann alltaf líta út eins og litla prinsessu. Á kvöldin þegar ég var að fara að sofa söng hún fyrir mig þessa fallegu sálma sem ég sofnaði út frá eða las skemmtilegar bækur. Amma og afi fengu að gista hjá okkur þegar þau komu í bæinn frá Blönduósi. Þau gistu í mínu herbergi og ég var mjög ánægð með að geta lánað þeim það. Þau voru alltaf svo þakklát. Þegar amma var hjá okkur töluðum við oft saman eins og bestu vinkonur og ég sakna þess mjög mikið. Amma var ekki aðeins amma í mínum augum heldur líka góð vinkona. Hún bjó til marga fallega hluti handa mér sem vekja minningar. Ég vil þakka guði fyrir góðar minningar um góða konu og vil enda þessa grein á sálmaversi sem hún var vön að fara með þegar ég var að sofna hjá henni.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson.)
Þórdís.
Þegar ég hugsa til Höllu frænku finn ég svo sterkan ilm af útlöndum. Að koma í Auðbrekkuna var ekki bara heimsókn í Kópavoginn til frænda og frænku, heldur líka upplifun framandi hluta. Macintosh, Mars, grillað brauð með beikoni, kalkúnar, svínakjöt. Og gjafirnar, maður lifandi, bleikröndótti kjóllinn frá Ameríku. Allt var svo nýtt og spennandi fyrir litla frænku.
Varla er hægt að tala um Höllu í eintölu, svo samofin var hún eiginmanni sínum og fjölskyldu. Hún var mikil móðir, ekki bara sinna barna, heldur margra annarra. Hún gerði allt af alúð ástríkrar móður. Maturinn var borinn á borð af tilfinningu og umhyggju og prjónarnir tifuðu í takt við hjartað. Það var ekki undarlegt þótt Óskar frændi væri styggur með stóra nestisboxið sitt í skógræktinni í gamla daga. Það hafði að geyma eitthvað sem allir girntust. Frá brauði að dásamlegri Deisí leisí köku. Öllu fyrirkomið eins og í fínasta mósaíklistaverki.
Halla var, líkt og margar íslenskar konur, þessi sérstaka blanda af heimasætu og heimskonu. Glatt sinni og hlýleiki voru sterkustu eðlisþættir hennar. Hún tjáði væntumþykju sína opinskátt og óþvingað. "Sæll frændi, sæl frænka." Hver kannast ekki við þessar kveðjur?
Halla elskaði Ísland og þó mest það sem yfir allt var hafið og öllu betra, Skeiðin í Árnessýslu. Þar liggja rætur hennar. Þar á hún skyldmenni og þangað sóttu foreldrar hennar og systkini, sem hún unni hugástum, orku sína og næringu.
Nú er Halla horfin til feðra sinna, kjarkmikl ljósbjört kona og móðir, sem þó glataði aldrei stelpunni í sjálfri sér.
Við systkinin, makar og börn sendum Baldri og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Vertu sæl, frænka. Þökk fyrir allt.
Bergljót, Vilhjálmur,
Ingunn og fjölskyldur.
Kveðja frá vinahóp sem kennir sig við Éljagang
Vinahópur sem kemur saman ár eftir ár allt frá unglingsárum, á saman margar minningar sem geymast allt til elliára. Einn og einn hverfur úr hópnum og harmur er kveðinn að þeim sem eftir lifa. Í dag er Halla Sigtryggsdóttir, eiginkona Baldurs Bjarnasens, félaga okkar, kvödd. Hún tók oft á móti okkur á heimili þeirra í Auðbrekkunni þegar við áttum samverustundir. Við fundum vel hve glöð og hress í bragði hún var þegar hún heilsaði okkur og bar fram veitingar en nú eru aðeins eftir góðar minningar og þakklæti til hennar og þeirra hjóna. Við biðjum Guð að styrkja Baldur og ástvini þeirra og orð Guðs megi færa þeim huggun og hughreystingu í sorg þeirra.Fyrir hönd félaganna
Sigursteinn Hersveinsson.