10. júní 2003 | Fasteignablað | 879 orð | 2 myndir

Njálsgata 23

Timburhúsið var upphaflega byggt sem íbúðarhús árið 1905, en það er einlyft með porti og risi. Steinhúsið var byggt 1943 sem íbúðar- og verzlunarhús.
Timburhúsið var upphaflega byggt sem íbúðarhús árið 1905, en það er einlyft með porti og risi. Steinhúsið var byggt 1943 sem íbúðar- og verzlunarhús.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsin við Njálsgötu 23 setja svip á umhverfi sitt, segir Freyja Jónsdóttir. Þeim hefur verið vel haldið við af eigendum sínum.
ÁRIÐ 1903 fékk Þorvaldur Eyjólfsson skipstjóri útmælda lóð á horninu norðan Njálsgötu, vestan Frakkastígs. Þorvaldur byggði hús á lóðinni sem enn stendur. Það var fullbyggt í apríl árið 1905. Það er einlyft með porti og fimm álna háu risi að grunnfleti 11x12 álnir. Húsið er klætt að utan með plægðum 1" borðum, pappa, listum og járni yfir og með járnþaki á plægðri 1" borðasúð með pappa á milli.

Á hæðinni eru þrjú íbúðarherbergi, eldhús, búr og einn fastur skápur. Hæðin er öll þiljuð, og herbergin með pappa á veggjum en striga og pappír í loftum; allt málað. Þar er einn ofn og ein eldavél. Uppi eru fjögur íbúðarherbergi og gangur; allt þiljað og málað. Þar eru fjórir ofnar og ein eldavél. Undir húsinu er kjallari, þrjár álnir á hæð. Þar eru fjögur geymslurými og gangur.

Við vesturgafl hússins er inngönguskúr með risi og kjallara. Hann er byggður eins og húsið, hólfaður í tvennt. Grunnflötur skúrsins er 4x4,5 álnir. Við norðurhlið hússins er inn- og uppgönguskúr, byggður eins og með háu risi og kjallara undir. Í honum eru tveir gangar og tvö salerni. Grunnflötur hans er 31/4x 53/4 álnir.

Samkvæmt íbúaskrá frá árinu 1908 búa í húsinu Þorvaldur Eyjólfsson skipstjóri, fæddur 5. apríl 1876 í Fíflholti í Hraungerðishreppi, Jakobína Guðlaug Guðmundsdótttir, kona hans, fædd 4. mars 1875 á Blómsturvöllum í Kræklingahlíð, og óskírt meybarn sem þau áttu, fætt 7. október 1908. Einnig var á heimilinu Ólafía Guðmundsdóttir, fædd 20. janúar 1895 á Eyrarbakka.

Tvö önnur heimili voru í húsinu með níu manns og hafa þá verið þrettán íbúar þar en sumt af þeim börn. Ekki er annað að sjá en Þorvaldur hafi átt húsið einn.

Ekki er vitað með vissu hvenær Þorvaldur selur eignina en Sæmundur Þorsteinsson trésmiður átti húsið um tíma. Elías Lyngdal er orðinn eigandi að Njálsgötu 23 árið 1923 en þá sækir hann um að breyta gluggum á hæðinni í verslunarglugga og setja hornsneiðing á húsið á horni Njálsgötu og Frakkastígs. Einnig fær hann leyfi fyrir að byggja geymsluskúr á lóðinni. Árið 1923 er byggður verslunarskúr á lóðinni úr steinsteypu.

Árið eftir sækir Elías um að hækka og breikka verslunar- og íbúðarhús sitt og er ekki annað að sjá en grunnflötur hússins hafi stækkað um 43,26 ferm., risið hækkað og gerður kvistur í norður.

Elías Lyngdal fæddist 15. október 1880 á bænum Hraungerði í Álftaveri. Hann mun hafa flust til Reykjavíkur árið 1903. Kona hans var Guðrún Lyngdal, fædd 5. nóvember 1890 á Akranesi.

Verslun með nýlenduvörur

Í áraraðir stundaði Elías verslunarrekstur á þessum stað og verslaði aðallega með nýlenduvörur. Árið 1943 er hann búinn að byggja við vesturgafl hússins íbúðar- og verslunarhús úr steinsteypu. Það ár eru húseignir Elíasar á Njálsgötu 23 teknar til virðingar. Þar segir m.a. að steinhúsið sé með járnþaki á borðasúð, með pappa á milli og þremur gluggakvistum, risi og kjallara.

Grunnflötur þess húss er 6,2x8,8 m. Í því eru fjögur gólf úr járnbentri steinsteypu. Skilveggir á aðalhæðunum eru úr venjulegri steinsteypu, en skilveggir í risi úr bindingi. Á neðstu hæðinni eru tvær sölubúðir, eldhús, klósett, anddyri, gangur og einn fastur skápur. Á fyrstu hæðinni er hlaðið innan á útveggi með steinhleðslu, síðan sementssléttað yfir og málað.

Í báðum sölubúðunum eru borð, skápar og skúffur og nokkur hluti veggjanna er lagður postulínsflísum. Uppi á hæðunum eru útveggir lagðir borðagrind með pappa í, listum og þiljað þar innan á, lagt striga og pappa bæði á veggjum og loftum. Þakloftið er þiljað og ýmist veggfóðrað eða málað.

Kjallari er með steinsteypugólfi, þar er þvottaherbergi, geymslur og klósett.

Þegar þessi virðing var gerð var sölubúð á hæðinni í timburhúsinu. Í gegnum tíðina hefur ýmist verið þar íbúð eða verslun. Núna er þar söluturninn Drekinn sem stofnsettur var á fyrstu hæð steinhússins árið 1995.

Sumarið 1943 var Hljóðfæraverslunin Rín stofnsett í húsinu af Stefáni Lyngdal, syni Elíasar og Guðrúnar, og konu hans Herdísi Sigurðardóttur.

Rín var þarna um árabil, þar til hún flutti í næsta hús á Frakkastíg 16, sem Elías byggði einnig á lóðinni frá Njálsgötu 23. Í Rín var mikið úrval hljóðfæra en á fyrstu árum verslunarinnar var mesta úrvalið af harmonikkum. Einhvern tíma á ferlinum var einnig verslað þar með leikföng. Eftir að Rín flutti var í verslunarplássinu ýmiss konar rekstur og á áttunda áratugnum tískuverslunin Parið, sem Henný Hermanns og Elísabet Guðmundsdóttir stofnuðu saman.

Stór lóð var með timburhúsinu og áður en steinhúsið var byggt var þar matjurtagarður. Bæði steinhúsið og Frakkastígur 16, þar sem Rín hljóðfæraverslun er til húsa, eru byggð þar sem matjurtagarðurinn var.

Eins og að framan greinir er söluturninn Drekinn á hæðinni. Þar hefur allt verið innréttað upp á nýtt og veggir klæddir með panel. Það fer vel við þetta fallega gamla hús.

Núna á þessum dögum er verið að koma upp grilli á staðnum. Drekinn á eftir að þjóna hverfisbúum, sem og öðrum sem þangað sækja, enn betur en áður, sem matvöruverslun, söluturn og matsala.

Stór suðurkvistur var gerður á húsið seint á níunda áratugnum, sem bæði stækkar íbúðina í risi og hleypir þar inn góðri birtu. Húsinu er mjög vel haldið við af núverandi eigendum sínum. Einar H. Gústafsson á efri hæðina en Margrét Guðmundsdóttir á verslunarhæðina og er einnig eigandi Drekans. Á tröppunni við inngöngudyrnar á Drekanum stendur nafnið Rín.

Helstu heimildir eru frá Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.