EIGENDUM sumarhúsa hér á landi gefst kostur á að leigja sumarhús sín í gegnum nýtt fyrirtæki, sumarhúsamiðlun Viator ehf., sem sérhæfir sig í að útvega erlendum ferðamönnum sumarhús á Íslandi.

EIGENDUM sumarhúsa hér á landi gefst kostur á að leigja sumarhús sín í gegnum nýtt fyrirtæki, sumarhúsamiðlun Viator ehf., sem sérhæfir sig í að útvega erlendum ferðamönnum sumarhús á Íslandi. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta fyrirkomulag sé alþekkt erlendis. Viator sé fyrst íslenskra fyrirtækja til að kynna þessa hugmynd hér á landi en það sé í samstarfi við erlend fyrirtæki sem reki sams konar starfsemi víða um Evrópu.

Fram kemur í tilkynningu Viator að fyrirtækið sér um alla kynningu á þeim sumarhúsum sem í boði eru. Í því felst meðal annars kynning með texta og mynd. Húsin eru kynnt í bæklingum erlendra ferðaskrifstofa og í kynningarbæklingi Viator og á heimasíðu fyrirtækisins á Netinu.

Útleiga í gegnum Viator er kvaðalaus fyrir eigendur sumarhúsanna, því þeim ber hvorki skylda til að þrífa húsin né sjá um viðhald þeirra meðan á útleigu stendur, að því er segir í tilkynningunni. Húslykla og lín fá gestir afhent í þjónustumiðstöð Viator í Keflavík eða á Egilsstöðum og skila því aftur á annan hvorn staðinn við brottför.

Viator er eitt þriggja fyrirtækja í samstæðunni Katla Travel BmbH, sem er í eigu Bjarnheiðar Hallsdóttur og Péturs Óskarssonar, sem jafnframt eru framkvæmdastjórar fyrirtækisins.