12. júní 2003 | Fólk í fréttum | 479 orð | 1 mynd

Dark Harvest er nýjasta hljómsveit Gulla Falk

Kolsvört þungarokksuppskera

Dark Harvest: Maddi, Kristján og Gulli Falk.
Dark Harvest: Maddi, Kristján og Gulli Falk.
ÞAÐ HVÍN í rafmagnsgítarnum. Hann kallast á við dyninn í trommunum sem slegnar eru af þunga og á hraða hjartsláttar þess sem ólmast og flaksar síðu hárinu í hamslausu þungarokki.
ÞAÐ HVÍN í rafmagnsgítarnum. Hann kallast á við dyninn í trommunum sem slegnar eru af þunga og á hraða hjartsláttar þess sem ólmast og flaksar síðu hárinu í hamslausu þungarokki.

Dark Harvest með gamla jálkinn síunga Gulla Falk í fararbroddi spilar á Gauknum í kvöld. Þetta er nýtt band sem hefur verið að spila sig saman í hérumbil eitt ár og er auk Gulla skipað þeim Madda bassaleikara (úr Forgarði Helvítis og Múspell) og Kristjáni trommuleikara (úr Changer og Shiva).

Blaðamaður sló á þráðinn til Gulla sem sagði að hann hefði verið að djamma í Mjölnisholti þegar hann heyrði í Madda: "Hann var að "djamma" með trommaranum úr Sólstöfum og ég spurði hvort hann vildi "djamma" með mér og bað hann síðan að velja trommara, sem varð Kristján úr Changer. Þetta æxlaðist síðan. Við erum í ýmsum böndum, en þetta er svona saumaklúbburinn okkar. Við "fílum" svipaða tónlist. Ég er náttúrlega "hevímetal" og vildi bæta inn í smá "pönkmetal"-áhrifum. Og þetta smellur svona vel saman."

Þeir sem sannreyna vilja þessa fullyrðingu geta sótt lag hljómsveitarinnar, "Sunny Valentino", á heimasíðu hennar á slóðinni www.helviti.com/darkharvest.

"Málið er að við erum eiginlega búnir að gera efni fyrir tvær plötur en okkur vantar söngvara fyrir helminginn af efninu svo við ákváðum að vera "instrumental" til að byrja með," segir Gulli Falk. "Þetta eru svo geðveikir spilarar, Maddi og Kristján, að við komumst upp með það þangað til við finnum rétta söngvarann."

Þeir verða þó ekki söngvaralausir á tónleikunum í kvöld, en þeim til aðstoðar verða valdir tónlistarmenn. Trúbadúrinn Ingi Valur ætlar að syngja með þeim en meðal þess sem flutt verður verða lög af diskinum Falk sem Gulli gaf út 2000. "Það er ekki hægt að vera með svona flotta tónleika "instrumental" allt kvöldið, þótt það væri reyndar ekki óskemmtilegt. Við setjum þetta í meiri graðhestabúning og fáum meðal annars til liðs við okkur Kalla og Stebba úr Dead Sea Apple."

Gulli virðist himinlifandi með útkomu Dark Harvest: "Við einhvern veginn pössum allir saman. Það er svo gaman við þetta band að allir fá að vera óheftir, engar kvaðir á mönnum aðrar en að bara spila eins lengi og menn geta. Allir eru jákvæðir og engin eiturlyf eða drykkja heldur skiptir bara máli ástin á góðri tónlist. Við erum búnir að æfa vel fyrir þetta og það er alveg yndislegt að spila með þessum gaurum. Ég er auðvitað elstur, gæti hér um bil verið pabbi þeirra, en það er svo gaman að spila með svona gaurum sem finnst bara gaman að spila. Þá er maður orðinn 15 aftur!"

Þetta eru fyrstu stóru tónleikar Dark Harvest en hljómsveitin hefur áður verið að læða sér inn óboðin á Grandrokk og lék við góðar undirtektir á Sólmyrkvatónleikum á dögunum.

Gulli Falk segir í vændum að gefa út plötu um jólin en lögin verða kynnt nú í sumar.

Tónleikar Dark Harvest verða í kvöld, fimmtudagskvöld, á Gauki á Stöng og hefjast stundvíslega kl. 23.00.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.