AFEITRUNARDEILD Byrgisins í Rockville hefur verið óstarfhæf undanfarna mánuði en málefni meðferðarheimilisins hafa verið í nokkurri óvissu frá áramótum. Nú hafa Byrgismenn yfirgefið Rockville og flutt starfsemina að hluta að Efri-Brú í Grímsnesi.
AFEITRUNARDEILD Byrgisins í Rockville hefur verið óstarfhæf undanfarna mánuði en málefni meðferðarheimilisins hafa verið í nokkurri óvissu frá áramótum. Nú hafa Byrgismenn yfirgefið Rockville og flutt starfsemina að hluta að Efri-Brú í Grímsnesi.

Á Efri-Brú er hins vegar enn sem komið er aðeins pláss fyrir 37 skjólstæðinga en 40 til viðbótar eru því á götunni, að sögn Guðmundar Jónssonar forstöðumanns. Hann segir ekki koma til greina að hafa afeitrunardeild að Efri-Brú þar sem veður geti hamlað því á vetrum að flytja þangað þá sem á meðferðinni þurfa að halda.

Til stóð að deildin yrði á Vífilsstöðum en að sögn Guðmundar virðist sá möguleiki nú út úr myndinni.

Í félagsmálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að málefni afeitrunardeildar svo og alls Byrgisins væru nú til skoðunar. Hafi viðkomandi aðilar fundað í gærmorgun í leit að lausn málsins og munu þær viðræður halda áfram.

"Starfsemi afeitrunardeildarinnar hefur verið lítil allt frá áramótum, eða allt frá því að við heyrðum að það ætti að fara með okkur héðan," segir Guðmundur. "Við þorðum aldrei að bæta neitt á en vorum að taka inn fólk á deildina í bráðatilfellum."

Mikil ásókn í meðferð hjá Byrginu

Guðmundur segir að taka þurfi til hendinni í Efri-Brú til að hægt sé að fjölga rýmum fyrir skjólstæðinga. "Það er alveg rosalegt að þurfa að vísa fólki frá. Það hringja margir á hverjum degi og spyrja hvort við séum búin að opna. Það hefur verið mjög mikil ásókn í meðferð hjá okkur."

Guðmundur segir að fólk sem ekki á í önnur hús að venda gangi fyrir í Byrginu en aðsókn annarra sé orðin mikil. "Við getum ekki tekið húsnæði austur að Efri-Brú undir afeitrunardeild. Það er ekki hægt, ég tala nú ekki um að vetrarlagi. Afeitrunardeildin verður að vera í borginni. Við verðum að hafa einhver tengsl við borgina. Fólk upplifir sig annars eins og það hafi verið sett í geymslu."

Breytt áform varðandi Vífilsstaði

Guðmundur segir ekki lengur standa til að hafa deildina að Vífilsstöðum eins og ákveðið hafði verið í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Hann segir málið hafa verið klappað og klárt en svo virðist sem það hafi strandað í fjármálaráðuneytinu. "Ég vona að þetta sé einhver misskilningur."

Hann segir afeitrunardeild nauðsynlega starfseminni en hún virðist ekki lengur vera inni í myndinni. Kastað hafi verið peningum til uppbyggingar í Rockville og núna stefni Byrgið í gjaldþrot vegna skulda sem stjórnvöld áttu að taka þátt í að greiða úr.