Örn Ingi með eitt verka sinna fyrir utan húsnæði sitt á Óseyri 6.
Örn Ingi með eitt verka sinna fyrir utan húsnæði sitt á Óseyri 6.
ÖRN Ingi Gíslason fjöllistamaður fagnar 30 ára starfsafmæli í listinni um þessar mundir og af því tilefni opnar hann yfirlitssýningu á verkum sínum í eigin húsnæði á Óseyri 6 á Akureyri í dag kl. 14. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í júní 1973.
ÖRN Ingi Gíslason fjöllistamaður fagnar 30 ára starfsafmæli í listinni um þessar mundir og af því tilefni opnar hann yfirlitssýningu á verkum sínum í eigin húsnæði á Óseyri 6 á Akureyri í dag kl. 14. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í júní 1973. Þetta er hans 31. einkasýning og sýnir hann málverk, skúlptúra, nytjalist úr tré og járni og kvikmyndir og eru elstu verkin frá 1980 en þau yngstu alveg glæný og rétt þornuð. Örn Ingi hafði ekki snert pensil í nokkur ár en var farið að klæja mjög í puttana. Hann endurhannaði húsnæðið með fjölnota notkun í huga og hefur unnið að endurbótum frá áramótum og fengið til liðs við sig fjölmarga iðnaðarmenn og er verkið langt komið.

"Hér hef ég eignast mitt eigið menningarhús með fjölbreyttum nýtingarmöguleikum," sagði listamaðurinn í samtali við Morgunblaðið. Húsnæðið er um 180 fermetrar að stærð og þar af er salurinn rúmir 100 fermetrar. Karlakór Akureyrar var þarna með æfingaaðstöðu í upphafi og að sögn Arnar Inga er hljómburður þar einstaklega góður. Hann sagði að þarna væri hægt að stunda myndlist, tónlist, dans og kvikmyndagerð svo eitthvað sé nefnt og geta áhugasamir leitað þar eftir aðstöðu.

Örn Ingi hefur ekki farið hefðbundnar leiðir við listsköpun sína og hann hefur reynt ýmislegt. Hann hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá kollegum sínum á Akureyri og hann hefur ekki haldið einkasýningu á Akureyri frá árinu 1979 en fjölmargar á höfuðborgarsvæðinu. "Það eru þrjár ástæður fyrir því að ég hef ekki haldið sýningu á Akureyri þetta lengi. Í fyrsta lagi vegna aðstöðuleysis, því þegar maður heldur sýningu vill maður gera það af alvöru, í öðru lagi er nauðsynlegt að fara á vígvöllinn fyrir sunnan og fá sinn dóm þar, í stað þess að byggja fílabeinsturn á heimaslóð eins og margir hafa gert um víða veröld. Og í þriðja lagi kom upp hálfgerður skítamórall meðal kollega minna í bænum gagnvart mér. Minn meðbyr í listinni er mótbyr og ég hef ekki viljað vera að hræra í vanmáttarkennd annarra manna. Ég hef t.d. aldrei fengið starfslaun hér á Akureyri og bærinn hefur ekki einu sinni keypt af mér mynd eftir að ferlinn hófst fyrir alvöru um 1980. Ég hef heldur aldrei farið hefðbundnar leiðir og verið kjaftfor en hef nú verið í þagnarbindindi í um 15 ár."

Örn Ingi hefur fengið mjög góð viðbrögð við sýningum sínum syðra og hann setti m.a. aðsóknarmet í Hafnarborg í Hafnarfirði árið 1992, þegar um 4.000 manns sáu sýningu hans. Þá framdi hann eina gjörninginn á haustsýningu Félags íslenskra myndlistarmanna á Kjarvalsstöðum árið 1980. Örn Ingi fór út af hinum almenna vinnumarkaði 1977, eftir 11 ára starf í Landsbankanum. "Ég leigði mér vinnustofu í Glerárgötunni og málaði eins og brjálaður maður næstu mánuði. Níu mánuðum síðar hélt ég svo sýningu og var svo vel tekið að Akureyringar keyptu upp sýninguna. Ég hef aldrei upplifað annað eins og þessi viðbrögð snertu mig svo mikið að það hefur aldrei hvarflað að mér að flytja úr bænum."

Örn Ingi hefur komið víða á löngum listamannsferli sínum. Hann hefur rekið myndlistarskóla nær óslitið í um 15 ár, kennt myndlist um allt land og unnið með tugþúsundum Íslendinga við skapandi störf víðs vegar um landið. Nú síðustu ár hefur kvikmyndagerð og kennsla í faginu átt hug hans allan. Fyrirtæki hans Arnarauga, sem stofnað var 1997, hefur þegar framleitt um 100 myndir, tónlistarmyndbönd, myndbönd, stuttmyndir og eina bíómynd í fullri lengd.

Yfirlitssýningin stendur um óákveðinn tíma - "það ræðst af áhuga og aðsókn."