SÍÐASTLIÐINN föstudag, 12. júní, birtist grein eftir Jónínu Benediktsdóttur íþróttafræðing hér á síðum Morgunblaðsins en fyrirsögn greinarinnar er: Botninum náð.
SÍÐASTLIÐINN föstudag, 12. júní, birtist grein eftir Jónínu Benediktsdóttur íþróttafræðing hér á síðum Morgunblaðsins en fyrirsögn greinarinnar er: Botninum náð. Megininntak greinar hennar er bollaleggingar vegna frétta undanfarið um barnaklám og sitja greinilega í greinarhöfundi nýlegar fréttir vegna seinasta máls af þessum toga.

Margt í greininni get ég tekið undir og virðumst við greinarhöfundur sammála um andstöðu okkar við barnaklám. Slíkt ofbeldi gagnvart börnum er svívirðilegt og ber að vinna stöðugt og markvisst að því að uppræta slíka starfsemi.

Það var hins vegar ein setning í grein Jónínu Ben. sem ég hnaut um og varð að lesa aftur og aftur yfir til þess hreinlega að skilja hvað höfundur greinarinnar á við. Hún er að tala um einkenni barnaníðinga og segir: "Trúleysi, siðleysi og illmennska einkennir alla þá sem viðhafa og geta framkvæmt slík ódæðisverk, þ.e. að svipta börn sakleysinu og sjálfsvirðingunni eða réttara sagt að taka börn af lífi." (áherslumerking er undirritaðs).

Ég er sammála geinarhöfundi um siðleysið og illmennskuna en ég vil leyfa mér að mótmæla harðlega þeirri staðhæfingu Jónínu að trúleysi sé það sem einkennir hóp barnaníðinga. Ég tel að Jónína hafi með skrifum sínum móðgað mig og aðra trúleysingja. Hefur Jónína einhverjar sannanir fyrir því? Eru einhverjar nýjar rannsóknir sem benda til þess að trúleysingjar séu upp til hópa barnaníðingar? Þessi staðhæfing greinarhöfundar minnir mig á umræðu um samkynhneigða fyrir 10 árum og meint siðleysi þeirra, m.a. að þeir væru barnaníðingar, en sem betur fer heyrast slíkar raddir núorðið einungis frá öfgahópum trúarofstækismanna hér á landi (að undanskildu Kópavogsmálinu nú nýverið).

Samkvæmt þeim skrifum sem birst hafa að undanförnu um mál barnaníðingsins kemur fram að hann hafi verið virkur í starfi KFUM og Óháða safnaðarins auk þess að hafa verið í kirkjukór! Að því gefnu að það sé einhver sannleikur í þessum skrifum stemmir það ekki við staðhæfingar Jónínu Ben. Ekki ætla ég mér þó að halda því fram að það sem einkennir barnaníðinga sé kristin trú þeirra og starf innan kirkjunnar. Þá væri ég kominn ansi langt í að stimpla ALLT kristið fólk sem barnaníðinga. Það er það seinasta sem mér dettur í hug.

Sjálfur er ég trúlaus en alls ekki siðlaus hvað þá illmenni eins og staðhæft er. Það ber hins vegar stundum við að ruglað er saman trúleysi og siðleysi hvort sem það er nú gert meðvitað eður ei. Sama fólk telur einnig kristilegt siðgæði vera eina siðgæðið sem til er en það er einnig rangt. Seinast þegar ég sá slíkar staðhæfingar um trúleysingja, sem Jónína viðhefur í grein sinni, var nú um jólin í viðtali við biskup Íslands. Jónínu og biskupnum vil ég til upplýsingar benda á að siðfræði varð til löngu á undan kristninni.

Ég hef t.d. alið börn mín upp í þeirri siðfræði sem Jónína og biskupinn telja mig skorta. Mín siðfræði snýst t.d. um að virða beri skoðanir annarra, að ekki skuli deyða mann, að það sé rangt að kúga fólk sem hefur annan litarhátt en ég eða hefur aðra kynhneigð. Í minni siðfræði er einnig talað um að virða trú eða lífsskoðun annarra hver svo sem hún er. Hins vegar er einnig talað um að berjast fyrir mannréttindum s.s. gegn trúarkúgun hvort sem um er að ræða trúarlögreglu sem sums staðar tíðkast í ríkjum islamista og kröfu þeirra um að konur hylji allan líkama sinn eða ítökum og áhrifum einnar trúardeildar í skólakerfi eins og er hér á landi.

Þar sem ég tel að Jónína Benediktsdóttir íþróttafræðingur hafi farið offari í staðhæfingu sinni og móðgað stóran hóp sem trúleysingjar eru krefst ég þess að hún biðji alla trúleysingja afsökunar á þessum orðum sínum eða leggi ella fram sannanir fyrir því að barnaníðingar séu upp til hópa trúleysingjar. Það er lágmarkskrafa mín.

BJARNI JÓNSSON,

Skeiðarvogi 101, Reykjavík.

Frá Bjarna Jónssyni: