Velvildarmaður þessara pistla benti mér á eftirfarandi fyrisögn, sem stóð í Mbl. 6. apríl sl.: Ótrúlega gaman að aka í púðursnjó [feitletrað hér]. Þar segir frá snjósleðaferð í Klettafjöllunum í Kanada.
Velvildarmaður þessara pistla benti mér á eftirfarandi fyrisögn, sem stóð í Mbl. 6. apríl sl.: Ótrúlega gaman að aka í púðursnjó [feitletrað hér]. Þar segir frá snjósleðaferð í Klettafjöllunum í Kanada. Í frásögninni er talað um, að þeir fóru á snjósleðum um stíga, sem engir voru búnir að fara á undan þeim. Síðan segir orðrétt: "Þeir voru því ótroðnir og púðursnjór yfir öllu, sem var okkur framandi. En það krefst allt öðruvísi ökutækni að aka í púðursnjó en harðfenni, eins og við erum vön hérna heima." Viðmælandi minn gizkaði á, að þetta væri bein þýðing á ensku orði, powder-snow. Trúlega er það rétt ágizkun, enda þótt ég finni það orð ekki í Ensk-íslenzku orðabók Arnar og Örlygs. Vitaskuld skilja allir, við hvað er átt með þessu orði, enda púður vel þekkt í íslenzku. Ein merking þess er einmitt duft til að bera á hörund. Hér hefur því einhverjum dottið í hug að líkja snjónum við duft og þannig farið að tala um púðursnjó. Aftur á móti er þetta orð með öllu óþarft í máli okkar og ætti helzt aldrei að heyrast eða sjást, meðan við höfum jafn ágætt orð og lausamjöll, sem ég held - eða vona a.m.k., að allir kannist við og þá ekki síður vélsleðamenn, sem þykir trúlega skemmtilegast að þeysast um nýfallinn snjó, þ.e. lausamjöllina. Orðabók Háskólans hefur dæmi um lausamjöll frá því á 17. öld, en ekkert dæmi um púðursnjó, enda það örugglega lítt þekkt eða óþekkt í máli okkar fyrr en þá á síðustu árum. Vel má vera, að vélsleðamenn noti það eitthvað í sínu máli. Sé svo, bendi ég þeim á að nota heldur íslenzka orðið. lausamjöll, enda er merking þess gagnsæ og öllum auðskilin. - JA.J.