FRAMKVÆMDASTJÓRN Íþrótta- og ólympíusambands Íslands mun skýra Alþjóðaólympíunefndinni og ólympíunefnd Grikklands frá þeim upplýsingum og fullyrðingum sem ýmis samtök hafa komið á framfæri um áform borgaryfirvalda í Aþenu um að fjölga vændishúsum og...

FRAMKVÆMDASTJÓRN Íþrótta- og ólympíusambands Íslands mun skýra Alþjóðaólympíunefndinni og ólympíunefnd Grikklands frá þeim upplýsingum og fullyrðingum sem ýmis samtök hafa komið á framfæri um áform borgaryfirvalda í Aþenu um að fjölga vændishúsum og greiða fyrir kynlífsþjónustu í tengslum við leikana í borginni á næsta ári.

Segist framkvæmdastjórn ÍSÍ ætla að leggja áherslu á andúð sína og mótmæli við þessum áformum ef rétt reynist.

Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindasamband Íslands, Kvennakirkjan og Stígamót sendu ÍSÍ bréf í síðustu viku þar sem vakin var athygli á upplýsingum sem Mata Kaloudaki frá Grikklandi kom á framfæri um áformin.

"Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur enga staðfestingu fyrir því að hér sé rétt greint frá, en hefur heldur enga ástæðu til að draga þessar fullyrðingar í efa. Stjórnin tekur hins vegar undir með bréfriturum og lítur það mjög alvarlegum augum ef þær reynast réttar enda eiga Ólympíuleikar ekki að vera skálkaskjól fyrir slíka kynlífsstarfsemi og er í rauninni í fullri mótsögn við tilgang leikanna, sem eru skilaboð um hreysti, heilbrigði, frið og jafnrétti kynjanna," segir í yfirlýsingu ÍSÍ.