Hafsteinn Pálsson
Hafsteinn Pálsson
Þolhönnunarstaðlar eru mikilvægir vegna þess að þar koma fram öryggiskröfur, álagsforsendur og hönnunarreglur sem gilda um hönnun mannvirkja. Hér á eftir fjallar dr. Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri BSTR, um endurskoðun þjóðarskjals vegna jarðskjálftahönnunar mannvirkja hérlendis en nýtt þjóðarskjal mun taka gildi 15. júlí 2003.
Staðallinn ÍST 13 Jarðskjálftar, álag og hönnunarreglur var fyrst gefinn út árið 1976 og síðan aðeins lítillega endurskoðaður 1989. Fyrir um ári síðan var ákveðið að notkun ÍST 13 yrði aðeins heimil til ársloka 2003. Eftir það yrði öll jarðskjálftahönnun samkvæmt evrópska forstaðlinum (Eurocode 8) ásamt viðeigandi þjóðarskjali, einnig þegar hannað er samkvæmt danska þolhönnunarstaðlinum með íslensku sérákvæðunum. ÍST 13 var barn síns tíma og segja má að löngu hafi verið tímabært að koma með nýjan staðal í hans stað.

Fyrsta útgáfa þjóðarskjals með Eurocode 8 tók gildi 1. júlí 2002. Þá lá fyrir að það yrði endurskoðað innan skamms tíma því hafin var endurskoðun kortsins sem skiptir landinu í hönnunarhröðunarsvæði. Nú er komin fram niðurstaða þeirrar vinnu með gildistöku nýja þjóðarskjalsins.

Fyrir tilstuðlan BSTR og ýmissa hagsmunaaðila, sérstaklega hönnuða, fékkst myndarlegur stuðningur frá umhverfisráðuneytinu til að endurskoða kortið í tengslum við vinnu vegna nýrra þolhönnunarstaðla sem tóku gildi fyrir um ári síðan. Þeir sem unnu að endurskoðun kortsins voru Björn Ingi Sveinsson jarðskjálftaverkfræðingur og Páll Halldórsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni.

Jarðskjálftaálag

Landinu er skipt í sex álagssvæði. Þessi svæði eru sýnd á kortum, annars vegar fyrir landið í heild og hins vegar fyrir höfuðborgarsvæðið, og jafnframt í töflu til þess að settar kröfur verði sem skýrastar. Rétt er að taka fram að beinn samanburður við ÍST 13 er erfiður þar sem uppbygging staðlanna er gerólík.

Innan Evrópsku stöðlunarsamtakanna (CEN) er unnið að því að endurskoða núgildandi forstaðla (ENV) og gefa þá út sem staðla (EN). Þessi vinna hefur tekið nokkuð lengri tíma en ráðgert var í upphafi en gengur engu að síður vel miðað við umfang verksins.

Áætlað er að staðlarnir komi út á næstu fjórum til fimm árum. Síðan er gert ráð fyrir að notkun þeirra verði heimil samhliða öðrum gildandi þjóðarstöðlum í um fimm ár. Þá verður einnig sú breyting á að í stað þjóðarskjala er gert ráð fyrir þjóðarviðaukum. Í formála hvers staðals verða skýr fyrirmæli varðandi efnisinnihald þjóðarviðaukanna.

Nýja þjóðarskjalið fæst hjá Staðlaráði Íslands sem er til húsa að Laugavegi 178.