[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er nauðsynlegt að taka stór skref í menntun lagnamanna á Íslandi. Komið hefur fram að þörfin fyrir menntun á verk- og tæknisviði fer vaxandi hér á landi. En hverjir eru lagnamenn?.

Það er nauðsynlegt að taka stór skref í menntun lagnamanna á Íslandi. Komið hefur fram að þörfin fyrir menntun á verk- og tæknisviði fer vaxandi hér á landi. En hverjir eru lagnamenn?. Ef notuð er nýjasta tækni og leitað á Netinu undir orðinu lagnamenn birtast orðin: Lagnakerfamiðstöð Íslands og Lagnafélag Íslands. Segja má að þarna séu komnir burðarstólpar lagnamenningar á Íslandi. Lagnakerfamiðstöð Íslands er kennslumiðstöð lagnamanna og Lagnafélag Íslands er aftur á móti vettvangur umræðu og félagsstarfa lagnamanna.

Lagnamenn er þverfaglegur hópur fólks með ólíka menntun. Þar innanborðs eru m.a. blikksmiðir, pípulagningamenn, rafvirkjar, þjónustuaðilar lagnakerfa, umsjónarmenn fasteigna, verk- og tæknifræðingar, kennarar og framleiðendur/seljendur lagnaefna. Þræðirnir eru margir og tengjast menntastofnunum og félögum.

Frágangur lagnakerfa, merking tækja, stilling þeirra og gerð handbókar hefur ekki verið kynnt í skólum hingað til svo vitað sé, hvorki á iðnaðar- né háskólastigi.

Að gerð sé handbók fyrir öll lagnakerfi hefur verið baráttumál Lagnafélags Íslands í mörg ár. Lagnamenn vita það að fyrr verða kerfin ekki fullkláruð. Í dag eru til fyrirmyndir slíkra handbóka hjá Lagnafélagi Íslands sem stórir verkkaupar hafa samþykkt að sé gerð fyrir öll lagnakerfi og flestar verkfræðistofur á lagnasviði hafa samþykkt.

Kennsla í gerð handbókar og á lokafrágangi lagnakerfa eins og handbókin forskrifar verður kennd í Lagnakerfamiðstöð Íslands á komandi tímum.

Markmið Lagnakerfamiðstöðvar Íslands er að annast menntun og þjálfun lagnamanna í samvinnu við önnur félög og skóla. Tekin hafa verið nokkur stór skref í lagnamálum á þessu ári og má þar nefna:

Námskeið í loftræstitækni á vegum Fræðsluráðs málmiðnaðarins

Námskeið á vegum Menntafélgs byggingariðnaðarins fyrir pípulagnir

Gerð kennslukerfis fyrir pípulagnir í Lagnakerfamiðstöð Íslands á vegum Danfoss

Gerð kennslukerfis fyrir loftræstikerfi í Lagnakerfamiðstöð Íslands á vegum margra fyrirtækja í greininni

Gerð og uppsetning 4 brunakerfa til kennslu, frá Brunamálastofnun og Sprinkler pípulögnum ehf..

Útgáfa á handbók fyrir lokafrágang lagna- og loftræsikerfa.

Stærsta skrefið verður tekið í haust þegar kennslukerfi Lagnakerfamiðstöðvar Íslands verða tekin í notkun. Það hefur komið fram hjá skólamönnum og lagnamönnum að væntingar eru miklar til Lagnakerfamiðstöðvar Íslands og búast má við góðri nýtingu tækja þar.

Ritstjórar Handbókar lagnakerfa eru Kristján Ottósson, Guðmundur Halldórsson og Sveinn Áki Sverrisson.