Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Breiðuvík hlaut á sínum tíma málningarstyrk Hörpu.
Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Breiðuvík hlaut á sínum tíma málningarstyrk Hörpu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Sjöfn hefur um árabil veitt málningarstyrk til ýmissa verkefna um land allt. Meðal þeirra sem nú hafa hlotið styrki eru landsfræg mannvirki, svo sem Listasafn Einars Jónssonar, Hnitbjörg. Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá þessum og ýmsum öðrum þáttum í starfsemi Hörpu Sjafnar.
Tilveran breytir um lit á sumrin, um það erum við öll sammála, einkum þegar sólin skín. Það er þó misjafnt hversu djúptæk þessi litbreyting er, málningin á mannvirkjum umhverfisins er einn af þeim þáttum sem á ríkan þátt í þessari umbreytingu. Fyrirtækið Harpa Sjöfn hefur þó unnið merkilegt starf fyrir okkur hin í þessum efnum. Árlega veitir fyrirtækið hinum ýmsu mannvirkjum svokallaða málningarstyrki og hafa nú á annað hundrað mannvirki hlotið slíka styrki.

"Í ár hljóta 25 aðilar málningarstyrk frá okkur og nemur verðmæti þeirra um tveimur milljónum króna. Alls hefur fyrirtækið úthlutað fjórtán þúsund lítrum af málningu til verðugra verkefna á síðustu árum að verðmæti meira en sex milljónir króna. Styrkirnir dreifast víða um land og til afar mismunandi verkefna. Nokkrar kirkjur eru meðal styrkþega, eftirtektarverð og þekkt hús sem hafa menningarsögulegt gildi eins og t.d. Wathnehús á Akureyri, Þrúðvangur að Laufásvegi 7 og Suðurgata 4 í Reykjavík. Einnig fær Byggðasafn Hafnarfjarðar styrk vegna Sívertsenshúss og Siggubæjar, svo eitthvað sé nefnt," sagði Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri Hörpu Sjafnar. Þetta fyrirtæki er nú orðið 67 ára.

"Þá er átt við þann hluta fyrirtækisins sem er Harpa hf. En fyrir um tveimur árum sameinuðust Harpa og Sjöfn á Akureyri og til varð fyrirtækið Harpa Sjöfn. Við teljum okkur nú vera með um fjórðung málningarmarkaðarsins á Íslandi," sagði Helgi ennfremur.

Hvað hafið þið að leiðarljósi þegar þið veljið styrkþega hjá ykkur?

"Fyrir fimm árum ákváðum við að auglýsa málningarstyrki á vegum Hörpu vegna þess að við höfðum gert okkur ljóst að víða voru aðilar að vinna merkilegt starf við að varðveita mannvirki sem hafa menningarsögulegt gildi og leggja ýmislegt á sig til að bjarga verðmætum frá glötun. Auk þess var okkur hugsað til alls konar góðgerðarfélaga, íþróttafélaga, ungmennafélaga og slíkra aðila sem eru að leggja góðum málefnum lið og skortir oft fjármuni til sinna starfa. Við vildum gera tilraun til að koma til móts við starfsemi af þessu tagi með því að veita þeim málningarstyrki. Skemmst er frá því að segja að mikil ásókn hefur verið í þessa styrki og höfum við fengið mikla hvatningu til að halda áfram að veita þá, enda hefur fjöldi umsókna borist ár hvert sem verðugar eru en við höfum því miður ekki getað sinnt nema hluta þeirra. Mikil ásókn er frá ýmsum aðilum um stuðning frá fyrirtækjum í atvinnulífinu og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hvernig fyrirtæki hafa fundið slíkum stuðningi farveg á síðari árum, með mismunandi hætti. Málningarstyrkurinn er okkar aðferð."

Er mikið fjör á málningarmarkaðinum núna?

"Það er óhætt að segja það. Nú er háannatími og vorið og sumarið hafa verið góð og mikil sala. Veður skiptir miklu máli í þessari grein. Gott sumar þýðir mikil viðskipti fyrir málara og málningarframleiðendur."

Hvaða litir eru mest í tísku þetta árið?

"Okkur sýnist að ljósari litir séu að koma meira í tísku aftur. Reynslan sýnir að tískan í litavali í málningu er svipuð og önnur tíska, hún gengur í hring og virðist hver hringur taka um það bil 20 ár að ganga yfir. Við sjáum ljósa liti, þar á eftir koma jarðlitir og á endandum dökkir litir - þannig lokast hringurinn - ljósu litirnir koma síðan aftur."

En er það þá nákvæmlega sama málningin sem kemur til skjalanna á ný?

"Málningin er í stöðugri þróun. Íslensk málningarframleiðsla hefur orð á sér fyrir gæði, enda búa Íslendingar við rysjótt veðurfar sem krefst mikilla gæða af málningu. Þess vegna höfum við lagt mikinn metnað í rannsóknir og þróun málningarinnar og rekum rannsóknastofur. Hjá fyrirtækinu starfa þrír efnaverkfræðingar sem sinna vöruþróun og gæðaeftirliti. Málning er eins og flestur annar varningur í stöðugri framþróun."

Hefur samkeppni harðnað á þessum markaði upp á síðkastið?

"Á Íslandi eru þrjár málningarverksmiðjur, voru fjórar þar til Harpa og Sjöfn sameinuðust fyrir tveimur árum og þannig hafði það verið um áratuga skeið. Þessi íslenski iðnaður keppir í óverndaðri samkeppni við innflutning. Við erum að keppa við risafyrirtæki, aðallega evrópsk og ég vil leyfa mér að halda því fram að íslenskur málningariðnaður hafi staðið sig mjög vel í þeirri samkeppni vegna gæða og góðrar þjónustu. Helstu keppinautar okkar sem selja innflutta málningu eru stórmarkaðir en sérstaða Hörpu Sjafnar er að við rekum eigin málningarverslanir. Harpa Sjöfn heldur úti lítilli keðju átta málningarverslana í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Akureyri og á Selfossi. Við erum þannig með verslanir á öllum helstu þéttbýlissvæðum landsins en eigum auk þess gott samstarf við endurseljendur á landsbyggðinni, bæði kaupfélög og kaupmenn. Verslanir Hörpu Sjafnar eru sérverslanir sem selja allt sem þarf til málunar, utanhúss og innan, jafnt málningu, viðarvörn, sparsl, kítti, verkfæri, áhöld og aðrar stuðningsvörur. Þar starfa fagmenn sem leggja sig fram um að veita viðskiptavinum persónulega þjónustu og hafa þekkingu til að gefa ráð sem duga varðandi vinnubrögð, litaval og efnismeðhöndlun."

Hvernig er þetta í nágrannalöndunum?

"Við sækjum fyrirmynd okkar að keðju sérverslana til Norðurlandanna, einkum Danmerkur. Við erum t.d. í góðu samstarfi við Flügger í Danmörku og erum umboðsmenn þeirra á Íslandi, en þeir reka 202 verslanir á sínum heimaslóðum og hófu rekstur eigin verslana fyrir um aldarfjórðungi og hafa aukið hlutdeild þeirra jafnt og þétt. Þetta fyrirkomulag er mjög algengt á Norðurlöndunum, nýtur þar vinsælda og hefur dugað afar vel. Við finnum það í þeim góðu viðtökum sem verslanir okkar hafa hlotið á markaðinum að það er full þörf fyrir sérverslanir Hörpu Sjafnar á íslenska málningarmarkaðinum."