Laufásvegur 7. Jens Eyjólfsson teiknaði og byggði húsið, sem fékk nafnið Þrúðvangur, en það er nafnið á ríki Ása Þórs. Húsið er glæsileg villa með virðulegu steinsteypuskrauti.
Laufásvegur 7. Jens Eyjólfsson teiknaði og byggði húsið, sem fékk nafnið Þrúðvangur, en það er nafnið á ríki Ása Þórs. Húsið er glæsileg villa með virðulegu steinsteypuskrauti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið er sérstaklega fallegt með steyptu skrauti á stöfnum og kvistum, segir Freyja Jónsdóttir. Útlit hússins minnir á barokktímabilið með jugend-áhrifum.
ÁRIÐ 1918 reisti Margrét Zoëga hús við Laufásveg 7. Margrét var ekkja Einars Zoëga, veitingamanns. Jens Eyjólfsson teiknaði og byggði húsið. Það heitir Þrúðvangur, sem er nafnið á ríki Ása Þórs. Ekki er vitað af hverju Margrét Zoega valdi húsinu þetta nafn en húsið er glæsileg villa með virðulegu steinsteypuskrauti.

Byggingu hússins var lokið í mars 1919. Þá koma virðingarmenn á staðinn og er hér stuðst við lýsingu þeirra. Þar segir m.a. að húsið sé byggt úr grásteini, einlyft með porti og sjö álna háu risi, með kvistum í austur og vestur. Það er með járnþaki á plægðum borðum með pappa í milli. Milligólf er í tveimur bitalögum með sagspónastoppi í milli. Eftir endilöngu húsinu er skilveggur úr steini upp að þakhæð. Aðrir skilveggir eru úr timbri.

Á aðalhæðinni eru fjögur íbúðarherbergi, tveir gangar og fjórir fastir skápar, allt þiljað og með striga og pappír á veggjum og loftum. Tvö herbergin eru með útskornum hurðum og dyraskrauti. Hæðin er öll máluð eða "betrekt". Á öðru gólfi eru sex íbúðarherbergi, gangur, geymsluklefi, baðherbergi með föstum skáp, baðtækjum og klósetti. Á efsta lofti eru tvö íbúðarherbergi, þiljuð, með striga og pappír á veggjum með sama frágangi og niðri. Þar er einnig stórt þurrkloft ómálað en herbergin eru máluð.

Á flestum gólfum hússins er linolíumdúkur nema í kjallara, sem er undir húsinu öllu, þar er steinsteypugólf. Eftir kjallaranum endilöngum er gangur og allir skilveggir úr steini og allt kalksléttað. Í loftum eru panelborð nema í tveimur herbergjum sem eru með múruðum loftum. Þar eru fjögur herbergi, eldhús með eldavél og miðstöðvarhitavélarklefi. Matarlyfta var í eldhúsinu upp á hæðina.

Við norðurgafl hússins er inngönguskúr, byggður eins og það. Að innan eru veggir kalksléttaðir og þak er úr járnbentri steinsteypu. Gólfið í skúrnum er úr steinsteypu og er lagt leirflísum. Ofan á skúrnum eru þaksvalir með steinsteyptu riði. Kjallari er undir skúrnum með steinsteyptu gólfi og kalksléttuðum veggjum. Þar er búr, gangur og geymsluklefi; lofthæð er 2,5 m. Aðaldyr hússins eru á inngönguskúrnum, með jafn breiðum steintröppum og skúrinn. Útidyrahurðin er útskorin af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara.

Minnir á barokktímabilið

Húsið er sérstaklega fallegt með steyptu skrauti á stöfnum og kvistum. Fyrir ofan gluggana eru greiptir bogar í steininn. Einnig er nafn hússins og ártal greipt í steininn á framhlið þess, en það er mótað af Ríkarði Jónssyni. Flestir gluggar eru fjögurra faga nema gluggar á kvistum eru sex faga. Margar litlar rúður eru í efri fögum glugganna. Sporöskjulagaður gluggi er efst á kvistinum og gluggar í kjallara eru með mörgum litlum rúðum. Útlit hússins minnir á barokktímabilið með jugend-áhrifum.

Margrét Tómasdóttir Zoëga var fædd 13. maí 1853 í Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Foreldrar hennar voru Tómas Klog Steingrímsson, fæddur 17. febrúar 1816, og Valgerður Ólafsdóttir kona hans, fædd 15. ágúst 1820 í Bygggarði á Seltjarnarnesi.

Tómas faðir Margrétar fórst í sjóróðri 19. maí 1854, tæpri viku áður en hún varð ársgömul.

Margrét var seinni kona Einars Zoëga veitingamanns. Margrét og Einar stunduðu veitingarekstur á Vesturgötu 17 til ársins 1906, síðan í Austurstræti 12, en þau hjón létu reisa Hótel Reykjavík, sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði. Einar Zoëga lést 9. ágúst 1909. Margrét hélt rekstrinum áfram þar til Hótel Reykjavík varð eldi að bráð aðfaranótt 25. apríl 1915, eins og fleiri hús í miðbænum.

Í glæsivillunni á Þrúðvangi bjuggu með Margréti Zoëga Einar Benediktsson skáld og eiginkona hans, Valgerður, dóttir Margrétar. Einar og Valgerður fluttu til Íslands frá Kaupmannahöfn í desember 1921. Sagan segir að hjónin hafi ekki fengið búslóð sína senda frá Kaupmannahöfn fyrr en um vorið. Heimili Einars og Valgerðar í Þrúðvangi var glæsilegt, mikill gestagangur og veislur haldnar.

Bókastofa skáldsins var á aðalhæðinni en talið er að hið grænlenska bókasafn Einars hafi verið í tveimur herbergjum í kjallara hússins.

Sumarið 1927 tilkynnti Margrét Zoëga Valgerði og Einari að þau yrðu að flytjast burtu úr Þrúðvangi með mánaðar fyrirvara. Um haustið sigldu hjónin til Noregs. Margrét Zoëga selur húsið árið 1928 Kjartani Gunnlaugssyni stórkaupmanni sem var einn af aðaleigendum Helga Magnússonar og & Co í Hafnarstræti 19.

Kjartan byggði bílskúr á lóðinni sumarið 1928 að grunnfleti 18,7 ferm. Sumarið 1941 byggir Kjartan viðbyggingu austan við húsið, hæð og kjallara með grunnflöt 31 ferm. Einar Erlendsson var meistari að byggingunni. Um 1930 var sett á stofn smábarnakennsla í kjallara hússins sem starfrækt var í nokkur ár.

Aðsetur Tónlistarskóla Reykjavíkur

Tónlistarskóli Reykjavíkur var í húsinu frá árinu 1949 til ársins 1962 og átti Tónlistarfélagið húsið. Árið 1958 var tekinn milliveggur á milli stofanna á aðalhæðinni og gerður þar einn tónleikasalur. Á þessum vegg voru tvöfaldar dyr með útskornum hurðum og rismyndum yfir báðum megin eftir Ríkarð Jónsson. Hurðirnar og önnur myndin eru glötuð en myndina sem varðveist hefur var búið að stytta en útskurðinn sakaði ekki.

Fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Reykjavíkur var Páll Ísólfsson. Árið 1956 tók við skólastjórastöðunni Árni Kristjánsson og var til ársins 1959. Þar næst stýrði skólanum Jón Nordal.

Eftir að Tónlistarskóli Reykjavíkur flutti í núverandi húsnæði í Skipholti 33 kaupir Framkvæmdasjóður Íslands eignina sem dr. Benjamín Eiríksson veitti forstöðu. Þá var sú hugmynd uppi að byggja stórhýsi yfir sjóðinn á þessum slóðum og keyptu forsvarsmenn Þrúðvang í því tilefni. Voru áætlanir uppi um að kaupa einnig nærliggjandi hús og rífa þau öll. Sem betur fer varð ekki af þessari niðurrifsstarfsemi og er Þrúðvangur ásamt þeim húsum sem áformað var að farga á sínum upprunalega stað, borginni og eigendum sínum til sóma.

Haustið 1962 fékk Menntaskólinn í Reykjavík húsið á leigu undir kennslustofur þegar Tónlistarskóli Reykjavíkur flutti. Menntaskólinn var í húsinu til vorsins 1989.

Um áramótin 1989-1990 kaupir Páll V. Bjarnason arkitekt Þrúðvang. Þá var búið að gera húsið upp að utan og rífa bílskúrinn. Einnig hafði lóðin verið lagfærð. Fella þurfti tvö tré sem voru við suðurgafl hússins en hlynurinn við hlið þeirra skyggði á þau. Margrét Zoëga mun hafa gróðursett trén um 1920.

Páll og fjölskylda hans fluttu inn um haustið 1990. Þá hafði Páll gert húsið upp að innan og að mestu leyti upprunalegt. Á meðan Kjartan Gunnlaugsson átti húsið flutti hann eldhúsið upp á hæðina. Páll skipti um allar innréttingar í eldhúsinu og er það eina herbergi hússins sem hefur verið gjörbreytt. Hæðirnar voru klæddar innan með gifsplötum yfir panelinn sem er bæði í loftum og á veggjum, en striginn og pappírinn sem var innan á þiljum og í loftum var illa farinn.

Skrautlistar í loftum voru lagfærðir og notaðir áfram. Ekki virðist hafa verið nema ein rósetta í húsinu en hún er í loftinu á borðstofunni. Parket var sett á gólfin en flöskugrænn linolíumdúkur var á þeim flestum. Marmari var settur á gólf í anddyri. Rafmagn-, kalda- og heitavatnsleiðslur voru endurnýjaðar.

Mikið af útskurði er í húsinu, t.d. tvær millihurðir og rismyndir.

Gunnlaugur Blöndal og Ríkarður Jónsson lærðu báðir útskurð hjá Stefáni Eiríkssyni og var ekki vitað með vissu þegar Páll kom í húsið hvor listamannanna átti hinn fagra útskurð. Páll kallaði til tvær dætur Ríkarðs og tvær dætur Stefáns Eiríkssonar sem lögðu það mat á útskurðinn í Þrúðvangi að Ríkarður Jónsson væri einn um að hafa unnið verkið.

Margrét Zoëga var þekkt fyrir að styðja við bakið á ungum listamönnum og í þessu tilfelli var það Ríkarður Jónsson. Einar Benediktsson fékk Ríkarð til þess að gera myndir í gifs af allri fjölskyldunni. Þær myndir virðast nú vera glataðar nema myndin af Einari sem er í eigu Þjóðminjasafnsins.

Það verður varla annað sagt en að húsið hennar Margrétar Zoëga hafi verið heppið að Páll V. Bjarnason og fjölskylda hans skyldu eignast það. Páll er með arkitektastofu í útbyggingunni sem Kjartan Gunnarsson stórkaupmaður lét byggja. Páll veitir húsadeild Árbæjarsafns forstöðu.

Voldug útidyrahurð

Skraut á göflum og kvistum hússins minnir óneitanlega á barokktímann. Hin volduga útidyrahurð er skorin út af Ríkarði Jónssyni. Handrið meðfram tröppum og kringum svalir ofan á inngönguskúr er í stíl við steinvegg í kringum garðinn sem varla getur kallast annað en listaverk. Steinvegginn hannaði Páll og byggði árið 1993. Þegar hann eignaðist húsið var gömul timburgirðing í kringum garðinn.

Það er ótrúlegt að einhvern tímann hafi það komið til tals að rífa annað eins hús og Þrúðvangur er.

Helstu heimildir eru frá Árbæjarsafni, Borgarskjalasafni og úr bókinni Einar Benediktsson eftir Guðjón Friðriksson. Einnig upplýsingar frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Íþöku, bókasafni Menntaskólans.