AÐALFUNDUR Búmanna var haldinn 6. júní sl. á Grand hótel Reykjavík. Á dagskrá fundarins var m.a. erindi Ívars Jónssonar prófessors við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem hann kallaði "Samvinnufélög sem valkostur". Í erindinu kom m.a.
AÐALFUNDUR Búmanna var haldinn 6. júní sl. á Grand hótel Reykjavík. Á dagskrá fundarins var m.a. erindi Ívars Jónssonar prófessors við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem hann kallaði "Samvinnufélög sem valkostur".

Í erindinu kom m.a. fram að yfir 750 milljón meðlimir í 100 löndum væru innan alþjóðasamtaka samvinnufélaga, International Co-operative Alliance skammstafað ICA.

Fram kom að samvinnuhreyfingin er mjög öflug í Bandaríkjunum á ýmsum sviðum s.s. í raforkuframleiðslu og raforkudreifingu, tryggingafélögum, bankastarfsemi og landbúnaði. Húsnæðissamvinnufélög í Bandaríkjunum eiga um eina milljón íbúða og eru um 600.000 þeirra í New York-borg.

Í Bretlandi eru um 3.000 húsnæðissamvinnufélög sem eiga um 360.000 íbúðir. Ríkisstjórn Tony Blairs leggur mikla áherslu á að fjölga húsnæðissamvinnufélögum með ýmiss konar stuðningi við þessi félög. Í þessum löndum eru samvinnufélög einnig mjög öflug á sviði öldrunarþjónustu, barnagæslu og ýmiss konar menningarstarfsemi.

Fram kom að samvinnufélög njóta velvilja almennings í þessum löndum vegna samfélagslegrar ábyrgðar þeirra. Kannanir í Bandaríkjunum sýna að 89% þeirra vilja heldur kaupa vörur frá samvinnufélögum en einkafyrirtækjum ef verð og gæði eru hin sömu.

Sóknarfæri samvinnurekstrar á Íslandi í dag gætu verið á sviði húsnæðissamvinnufélaga þar sem aukin tekju- og stéttarskipting eykur þörfina fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem krefst minni fjárbindingar. Nýsköpun velferðarþjónustu er í deiglunni þar sem skapast möguleika á samvinnuframkvæmdum. Einkaframkvæmd á sviði opinberrar þjónustu eykst bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Samvinnuvæðing í heilbrigðisþjónustu er vænn valkostur sem sameinar hagsmuni neytenda og rekstraraðila betur en einkaframkvæmd svo nokkuð sé nefnt.

Stjórn Búmanna og framkvæmdir félagsins

Í dag hafa Búmenn sem byggja búseturéttaríbúðir fyrir 50 ára og eldri tekið 196 íbúðir í notkun í níu sveitarfélögum. Félagið hefur um 100 íbúðir í byggingu eða á undirbúningsstigi. Formaður stjórnar Búmanna var kosin Guðrún Jónsdóttir arkitekt. Aðalmenn til tveggja ára voru kosin Sigurveig Sigurðardóttir og Úlfur Sigurmundsson. Fyrir í stjórn voru Steinunn Finnbogadóttir varaformaður og Steinar Júlíusson.

Varamenn voru kosin Ásgeir Hjálmarsson, Eyrún Eiríksdóttir og Jón Helgason.

Verklok og vorhátíð við Prestastíg

Að loknum aðalfundi félagsins var haldið upp á það að Búmenn hafa lokið uppbyggingu alls 80 íbúða ásamt samkomuhúsi við Prestastíg 2-11 í Grafarholti. Um 100 gestir voru viðstaddir hátíðina.

Íbúðir Búmanna eru vandaðar og fullbúnar. Aðalsmerki Búmanna er að íbúarnir geti búið í íbúðunum eins lengi og kostur er. Miðað er við að þær séu með aðgengi fyrir alla, þ.e. þó að íbúar þurfi tímabundið að nota hjálpartæki, s.s. hjólastól, þarf viðkomandi ekki að flytja úr íbúðinni. Lögð er áhersla á að íbúðir félagsins henti þessum aldurshópi með tilliti til stærðar íbúðar og lóðar. Íbúðir félagsins eru í raðhúsum, parhúsum og fjölbýli.