Peningagólfið í Gamla Akur-apóteki á Akureyri.
Peningagólfið í Gamla Akur-apóteki á Akureyri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við Hafnarstræti 104 á Akureyri - göngugötunni - er húsið Gamla Akur-apótek, en því nafni er húsið þekktast undir. Þar er nú ferðamannaverslunin Víkingur m.a. Þar innan dyra er mjög sérkennilegt gólfefni sem vegfarendum verður mjög starsýnt á.
Við Hafnarstræti 104 á Akureyri - göngugötunni - er húsið Gamla Akur-apótek, en því nafni er húsið þekktast undir. Þar er nú ferðamannaverslunin Víkingur m.a. Þar innan dyra er mjög sérkennilegt gólfefni sem vegfarendum verður mjög starsýnt á. Gólfið er lagt tíeyringum og 50 aurum en þó mestmegnis fimmeyringum af gömlu góðu koparkynslóðinni.

"Hugmyndin kom upp í hugskotið, ég hafði enga fyrirmynd að þessu gólfi," Sigurður Guðmundsson sem á verslunina sem fyrr greindi og lagði gólfið.

"Peningana fékk ég með því að "hreinsa" út alla lagera af gömlum fimmeyringum sem fundust í bönkum á Akureyri, það sem á vantaði fékk ég sent úr Seðlabankanum en við dyrnar þurfti ég að nota minni peninga, 10 aura og 50 aura. Ætli það séu ekki um 110 þúsund peningar í gólfinu. Gólfefnið sem slíkt kostaði að nafnverði um 5.000 krónur. Þetta er því eitt ódýrasta gólfefni sem fáanlegt er, miðað við endingu.

Ég lagði peningana í blautt lakk og lakkaði svo yfir þegar allt var þurrt. Ég notaði ákveðna tegund sem ég fékk frá Póllandi."

Hvernig gekk þetta verk?

"Það gekk mjög vel, fólk heldur að þetta hafi verið margra daga vinna en við vorum þrír saman og vorum fjóra tíma að ljúka við verkið eftir að að grunnvinnu við gólfið lauk.

Ríkisábyrgð er á gólfinu í þúsund ár, segi ég stundum."