BARCLAYS-bankinn, sem hefur veitt lánsloforð vegna fjármögnunar Kárahnjúkavirkjunar, sætir nú mikilli gagnrýni alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka.
BARCLAYS-bankinn, sem hefur veitt lánsloforð vegna fjármögnunar Kárahnjúkavirkjunar, sætir nú mikilli gagnrýni alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka. Segja umhverfisverndarsamtökin WWF og Royal Society for the Protection of Birds (RSPB) Barclays brjóta í bága við svonefndar "miðbaugs" grundvallarreglur, sem bankinn hefur tileinkað sér ásamt tíu öðrum stórum bönkum. Miða þessar grundvallarreglur að því að meta verði öll verkefni sem fara yfir fimmtíu milljónir bandaríkjadala að stærð með tilliti til umhverfisskaða, mengunar og sjálfbærni.

Í frétt í breska blaðinu Independent segir að það veki sérstaka athygli að ákvörðunin um að fjármagna Kárahnjúkavirkjun sé tekin einungis mánuði eftir að bankinn skrifaði undir grundvallarreglurnar.

Alþjóðlegur þrýstingur

Að sögn WWF og RSPB mun virkjunin stefna í hættu varpsvæðum 7.000 sjaldgæfra heiðagæsa sem hafa vetrarsetu í Bretlandi og eyðileggja "undirbúningssvæði" tveggja gæsategunda sem verpa í Bretlandi á sumrin.

Barclays liggur nú undir miklum þrýstingi alþjóðlegra umhverfissamtaka að draga til baka stuðning sinn við verkefnið og mun WWF leggja fram mótmæli sín við fyrirtækið í vikunni. Talsmenn bankans segja þó fjármögnun Kárahnjúkavirkjunar ekki falla beint undir miðbaugs grundvallarreglurnar. Engu að síður hafi Barclays í tvígang látið gera umhverfismat á verkefninu og hefur hvorugt matið leitt til þess að bankinn dragi til baka stuðning sinn við verkefnið.

Independent