Andfætlingurinn Ben Frost verður meðal þeirra sem spila á Nýlistasafninu í kvöld. Hér er hann ásamt Kristínu Björk, umsjónarmanni tónleikanna.
Andfætlingurinn Ben Frost verður meðal þeirra sem spila á Nýlistasafninu í kvöld. Hér er hann ásamt Kristínu Björk, umsjónarmanni tónleikanna.
FJÖLBREYTTIR tónleikar verða haldnir í Nýlistasafninu í kvöld. Þarna er á ferð liður í tónlistarverkefninu Tilraunaeldhúsið en þessir tónleikar eru partur af tónleikaröð sem ber heitið Sæluhúsið og hóf göngu sína í janúar.
FJÖLBREYTTIR tónleikar verða haldnir í Nýlistasafninu í kvöld. Þarna er á ferð liður í tónlistarverkefninu Tilraunaeldhúsið en þessir tónleikar eru partur af tónleikaröð sem ber heitið Sæluhúsið og hóf göngu sína í janúar.

"Sæluhúsið varð til svo einhversstaðar mætti vera athvarf fyrir tónlistargrúskara sem finnst gott að fara á óvenjulega tónleika," segir Kristín Björk Kristjánssdóttir, umsjónarmaður tónleikanna. "Sæluhúsið opnuðum við í byrjun ársins og það hefur verið mánaðarlega síðan en Tilraunaeldhúsið hefur verið til frá 1999 og hefur staðið fyrir líkum viðburðum frá upphafi."

Tónlistarmennirnir sem koma fram á tónleikunum eru margir hverjir nokkuð óvenjulegir og jafnvel sjaldséðir: "Við höfum áhuga á fólki sem er framsækið, þenkjandi, opið og undarlegt, og kannski ekki síst fólk sem spilar mjög sjaldan eða jafnvel aldrei á tónleikum. Okkur finnst gaman að prufa að vera driffjöður í því að hvetja fólk til að spila lifandi. Það vill oft verða að þessi framsæknari geiri er meira í svefnherberginu en að halda tónleika, og svo frábært að njóta tónlistar saman og lifandi að við erum tilbúin að leggja nokkuð í að draga fólk út úr skúmaskotum."

Listamennina fá aðstandendur verkefnisins til sín með ýmsum leiðum, bæði formlegum og óformlegum, gegnum kunningsskap og ábendingar. Fjórir dagskrárliðir eru á tónleikunum í kvöld en þar gætir ýmissa grasa og eru meðal annars gestir frá Hollandi og Ástralíu.

Rafmagnaðir erlendir gestir

Fyrstur verður Borko, Björn Kristjánsson. Hann hefur gefið út plötuna Trees and Limbo og spilar "rosalega flotta morðmúsíklega tónlist" eins og Kristín Björk orðar það.

Þá kemur bandið Her Torpedo sem að stendur Jara (Jarþrúður Karlsdóttir) sem fær til liðs við sig Bíbí sem var í Kolrössu krókríðandi og Nico, kærasta hennar. Kristín segir hana nýbúna að ganga frá plötu en er á tónleikunum í fyrsta skipti að spila efni af henni lifandi.

Hinn ástralski Ben Frost spilar í félagi við Valgeir Sigurðsson. Hann gaf nýverið út plötuna Music for Sad Children og leikur rómantískt andrúmspopp. Loks eru Telco Systems frá Hollandi en annar hluti dúettsins spilaði á síðustu Iceland Airwaves-hátíð í Reykjavík: "Þetta er mjög hrífandi band sem er mikið að vinna með rauntímamyndir og hljóð. Þetta er brillíant elektróník sem þeir hafa ferðast með um allan heim."

Það verður því úr nógu að moða á tónleikunum, en eins og Kristín segir þykir henni sérlega skemmtilegt við tónleikana hve flölbreytt tónlistaratriðin eru, allt frá draumkenndri raftónlist til harkalegra óhljóða.

www.kitchenmotors.com

Sæluhús rafmagnað-tónleikarnir eru í kvöld, mánudagskvöld, í Nýlistasafninu, Vatnsstíg 1, og hefjast kl. 20. Aðgangur kostar 500 kr.