Andri Óttarsson lögmaður ritar grein á Deiglan.com, þar sem hann undrast að hópur frjálshyggjumanna skipi sér í flokk þeirra sem telja að stofna eigi íslenskan her. Andri segir m.a.

Andri Óttarsson lögmaður ritar grein á Deiglan.com, þar sem hann undrast að hópur frjálshyggjumanna skipi sér í flokk þeirra sem telja að stofna eigi íslenskan her.

Andri segir m.a.: "Þetta hefur vakið furðu margra því ein af kennisetningum frjálshyggjunnar er, eins og allir ættu að vita, að lágmarka ríkisafskipti og ríkisútgjöld. Hafa sumir þessara yfirlýstu frjálshyggjumanna svarað því til að það sé eitt af fáum hlutverkum ríkisvaldsins að verja landið og því sé þetta fyllilega heimilt skv. kennisetningunum. Virðast þeir túlka þær þannig að þær heimili gagnrýnislaust stofnun hers með tilheyrandi útgjöldum burtséð frá því að við séum í NATO og að nánast engin hætta steðji að landinu sem sérsveit lögreglunnar myndi ekki ráða við."

Andri segir að kostnaður við rekstur hers á Íslandi myndi aldrei nema minna en nokkrum tugum milljarða á ári. Honum finnst skjóta skökku við að frjálshyggjumenn mæli fyrir þessum útgjaldaauka: "Hvað á maður að halda um aðila sem hlupu til handa og fóta vegna fæðingarorlofsins og litu á það sem hið versta þjóðfélagsmein? Helstu rök þess voru aukin útgjöld ríkissjóðs. Nú eru sömu einstaklingar að dásama og boða aukin ríkisútgjöld upp á tugi milljarða á hverju ári," segir Andri.

Í grein á heimasíðu Heimdallar ritar Haukur Þór Hauksson um sama efni. Hann segir það vera brýnasta hlutverk ríkisvaldsins að verja þegna sína.

Frelsishugsjónin gengur út frá þeirri hugmyndafræði að hver einstaklingur eigi að fá að gera það sem hann vill svo lengi sem hann beitir ekki aðra einstaklinga ofbeldi. Af því leiðir að til að tryggja frelsi einstaklinga verður að gæta þess að þeir verði ekki fyrir ofbeldi (frelsisskerðingu), en ef svo fer að þeir hafi þá vettvang til að leita réttar síns og að viðkomandi verði látnir taka afleiðingum gerða sinna. Á Íslandi hafa lögregla og dómstólar einmitt það hlutverk að tryggja einstaklingum vernd gegn ofbeldi og ofríki annarra," segir Haukur Þór.

Hann telur að ekki sé hægt að líkja varnarmálum við önnur útgjöld ríkisins: "Með frelsishugsjónina að leiðarljósi hlýtur það að vera eðlilegt að fólk í frjálsu landi vilji verja sig gegn hugsanlegum árásum annarra þjóða eða hryðjuverkamanna. Það getur því vart talist andstætt frelsishugsjóninni að vilja standa vörð um frelsið."