Andri Óttarsson, stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta, ásamt verðlaunahöfunum Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur og Davíð Rúdólfssyni, sem er lengst til hægri á myndinni.
Andri Óttarsson, stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta, ásamt verðlaunahöfunum Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur og Davíð Rúdólfssyni, sem er lengst til hægri á myndinni.
BRYNDÍS Björk Ásgeirsdóttir og Davíð Rúdólfsson hafa fengið styrk frá Félagsstofnun stúdenta að upphæð 100 þúsund krónur. Það var Andri Óttarsson, stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta, sem afhenti styrkinn.
BRYNDÍS Björk Ásgeirsdóttir og Davíð Rúdólfsson hafa fengið styrk frá Félagsstofnun stúdenta að upphæð 100 þúsund krónur. Það var Andri Óttarsson, stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta, sem afhenti styrkinn. Bryndís hlauk styrk fyrir MA-verkefni í félagsfræði. Davíð skrifaði BS-ritgerð í viðskiptafræði um árangur af verðmati fyrirtækja. Þar skoðar hann mat greiningardeilda fjármálafyrirtækja á verðmæti félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Verkefni Bryndísar heitir "Vændi meðal ungs fólks á Íslandi og félagslegt umhverfi þess." Verkefnið byggist á úrvinnslu gagna sem safnað var meðal allra framhaldsskólanema á Íslandi í rannsókn á vegum Rannsóknar og greiningar. Þá tók Bryndís viðtöl við nokkra einstaklinga sem sögðust hafa þegið greiða eða greiðslu í skiptum fyrir kynlíf og sérfræðinga sem hafa reynslu af starfi með slíkum einstaklingum. Verkefni Bryndísar Bjarkar, sem einnnig er unnið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og raun einstætt að því leyti hversu stór hluti fólks á tilteknum aldri tók þátt í könnuninni. Alls tóku tæplega átta þúsund ungmenni þátt í könnuninni. Allir framhaldsskólanemar, á aldrinum sextán til nítján ára, sem mættu í skólann á degi könnunarinnar skiluðu svörum. "Það er einstakt í rannsóknum á þessu viðfangsefni að náð sé til svo stórs hóps skólanema á þessum aldri," segir Bryndís Björk.

Misnotkun eykur líkur á vændi

Niðurstöður Bryndísar Bjarkar bæta við fyrri rannsóknir og draga fram hvernig þrjár félagsfræðilegar kenningar um frávikshegðun varpa ljósi á hvernig kynferðisleg misnotkun í æsku eykur líkur á vændi á unglingsárum. Hún ítrekar að einungis sé verið að vinna með þann hóp sem var skráður í framhaldsskóla: "Við vitum hins vegar að það getur verið erfitt að ná til ákveðins hóps fólks sem ekki er í skólanum. Það ber því að ítreka að þarna erum við sérstaklega að skoða skólafólk. Hins vegar vitna ég í það í rannsókninni að við gerðum einnig könnun meðal ungs fólks á þessum aldri sem ekki er í skóla. Það er miklu minni hópur en þær niðurstöður sem ég gat borið saman á milli framhaldsskólakönnunarinnar og utanskólakönnunarinnar virtust nokkuð sambærilegar," segir Bryndís

Umfang ekki aðalatriðið

Bryndís segir umfang vændis ekki vera mikilvægasta viðfangsefni rannsóknar sinnar: "Við vitum að það er mjög erfitt að meta umfang vændis eins og staða mála er í dag. En í rannsókninni sögðust nokkrir tugir hafa þegið greiða eða greiðslu fyrir kynmök."

Hún segir að skilgreiningin á vændi, sem notast er við í rannsókninni, sé sú að skipti á kynmökum fyrir greiða eða greiðslu hafi átt sér stað. "Í sumum tilvikum er um það að ræða að eldra fólk tæli ungt fólk og börn þannig að það er því á gráu svæði hvort gjörningurinn teljist til vændis eða kynferðisofbeldis," segir Bryndís Björk.

Flókið samspil

Í rannsókn sinni notar Bryndís Björk ólíkar kenningar til að skýra tengslin á milli vændis og kynferðislegrar mistnotkunar í æsku. Hún segir að skýr fylgni sé á milli þess að einstaklingur leiðist út í vændi og að hann hafi verið beittur kynferðislegu ofbeldi: "Þessi tengsl eru nokkuð sterk og hafa komið fram í erlendum rannsóknum. Þessi tengsl koma einnig fram í rannsókninni. Við sjáum hins vegar að það eru margir aðrir þættir sem skýra vandann að hluta og meginniðurstaðan er sú að mjög flókið samspil félagslegra þátta hefur áhrif á það hvort ungmenni leiðist út í vændi."

Bryndís Björk segir að almennt hafi rannsóknir sýnt að vændi ungs fólks sé gjarnan tilviljanakennt. "Skipulagt vændi tilheyrir frekar eldri aldurshópum samkvæmt þeim rannsóknum sem liggja fyrir. Þó þekkist skipulagt vændi einnig hjá ungmennum," segir Bryndís Björk.

Ítarlegri niðurstöður rannsóknar Bryndísar Bjarkar verða kynntar innan skamms. Leiðbeinandi Bryndísar Bjarkar var Þórólfur Þórlindsson.

Voru greiningardeildir ráðhollar?

Lokaverkefni Davíðs Rúdólfssonar fólst í því að gerð var rannsókn á því hvort greiningardeildir fjármálafyrirtækja hafi reynst ráðhollar í verðmati sínu á fyrirtækjum á Kauphöll Íslands á tímabilinu júlí 1999 til mars 2003.

"Ég hef verið með verkefnið nokkuð lengi í smíðum," segir Davíð sem jafnhliða námi hefur starfað hjá Íslandsbanka: "Þetta tók mig um eitt og hálft ár og alls eru tæplega þrjú hundruð verðmatsniðurstöður á bak við rannsóknina." Hann safnaði saman gögnum frá Íslandsbanka, Kaupþingi og Búnaðarbankanum og skoðaði hversu oft greiningardeildirnar töldu að markaðsverð væri of hátt og hve oft þær töldu það of lágt.

Skoðaði áhrif þess að fylgja ráðum greiningardeilda

Hann gaf sér þá forsendu að ef greiningardeild teldi að rétt verð væri yfir 5% hærra en markaðsverð þá jafngilti það því að ráðleggja fjárfestum að kaupa í viðkomandi fyrirtæki en ef fjármálastofnunin taldi markaðinn ofmeta fyrirtæki um 5% eða meira þá jafngilti það ráðleggingu um sölu á bréfum í því félagi.

Davíð segir að Íslandsbanki hafi skorið sig úr að því leyti að greiningardeild hans hafi mun oftar en aðrir talið að markaðsverð á fyrirtækjum væri of hátt. Í 89% tilvika taldi Kaupþing t.a.m. að verð á félögum væri lægra en vera skyldi en sambærilegt hlutfall hjá Íslandsbanka var 60%.

"Ég setti fram tilgátu um að bankarnir væru mun oftar að ráðleggja kaup en sölu á hlutabréfum. Ég skoðaði þetta sérstaklega frá nóvember 2000 því frá og með þeim tíma gáfu allir bankarnir reglulega út verðmat á fyrirtækjum. Tilgátan stóðst miðað við tímabilið sem til athugunar var sem er í samræmi við það sem komið hefur fram í erlendum rannsóknum," segir Davíð.

Í verkefninu setur hann fram aðra tilgátu sem er tvíþætt: "Annars vegar gerði ég tilraun til að meta árangur greiningaraðila óháð því hvaða ávinning fjárfestar gætu haft af ráðleggingum þeirra. Þar bar ég saman verðmat og markaðsverð eins og það var einum degi fyrir útgáfu og skoðaði þróunina næstu sex mánuði. Það sem kemur í ljós er að ef greiningaraðilar töldu viðkomandi félag vera mjög vanmetið á markaði þá virðist verðþróun þeirra hafa verið í samræmi við ráðgjöfina og bréf í félaginu hækkuðu."

Hefðu grætt á fylgispekt

Davíð kemst að þeirri niðurstöðu að fjárfestar sem fylgdu ráðleggingum greiningarfyrirtækjanna fengu betri ávöxtun en sem nam meðalávöxtun af fjárfestingu í vísitölusjóðum.

Davíð skoðaði einnig hvort aukin arðsemi, sem fælist í fylgispekt við greiningardeildir, orsakaðist af aukinni áhættu. Niðurstaðan var að svo væri ekki. Leiðbeinandi Davíðs var Gylfi Magnússon.