Gísli Baldur Garðarsson með fallega laxa úr Langá.
Gísli Baldur Garðarsson með fallega laxa úr Langá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tuttugu punda nýgenginn hængur veiddist á Eyrinni í Norðurá á laugardagskvöldið og eftir því sem komist verður næst hefur svo stór lax ekki veiðst í ánni síðan sumarið 1988.
Tuttugu punda nýgenginn hængur veiddist á Eyrinni í Norðurá á laugardagskvöldið og eftir því sem komist verður næst hefur svo stór lax ekki veiðst í ánni síðan sumarið 1988. Það var Ingólfur Ásgeirsson, þrautreyndur Norðurármaður og leiðsögumaður, sem veiddi laxinn og var agnið Blue Charm, "Wilson", númer 14. Laxinn var 101 cm og var honum sleppt að viðureign og mælingu lokinni.

"Það var ótrúlega skemmtilegt að lenda í þessu, ég hef veitt í Norðurá um árabil og aldrei náð stærri en 14 punda laxi úr henni. Annars sýnist mér að merkilegir hlutir séu að gerast hérna. Það eru tveggja ára laxar, 10 til 14 punda í hverjum hyl í ánni, við bæði sjáum þá og setjum í þá. Karl sem ég var að leiðsegja í síðustu viku setti í sjö svoleiðis fiska á þremur dögum og fleiri voru að lenda í því. Ég hef verið leiðsögumaður við Vatnsdalsá síðustu þrjú árin og þar er mikið af svona laxi í bland. Mér leið hérna við Norðurá eins og ég væri kominn aftur í Vatnsdalinn. Þetta er eins og önnur veröld frá því sem verið hefur. Ég tel að hér sé að koma í ljós mikilvægi þess að netin voru tekin upp úr Hvítá og ennfremur hvað það er mikilvægt að stærri laxinum sé sleppt. Þetta var svona í Kanada, netin fóru upp og öllum laxi skyldi sleppt fyrir 10-12 árum og einmitt nú um stundir sjá menn að laxinn fer stækkandi. Þetta er bara sá tími sem það tekur stofn að ná sér á strik. Og þetta er bara rétt að byrja, kannski sjáum við Borgarfjarðarárnar á næstu árum eins og þær voru framan af síðustu öld, fullar af stórlaxi," sagði Ingólfur í samtali við Morgunblaðið.

Ýmsar fréttir

Blanda er komin með á annað hundrað laxa og auk þess hafa um 500 stykki farið um laxastigann við Ennisflúðir. Alltaf fer eitthvað af laxi fram hjá stiganum þar, þannig að mjög líflegt er orðið í efri hluta árinnar. Nær allt er þetta stórfiskur enn sem komið er, 9 til 14 pund og nokkrir enn vænni. Eitthvað er farið að sjást af smálaxi.

Laxá á Ásum er að skríða af stað hægt og bítandi, að sögn leigutaka togast nú uppúr henni 4 til 6 laxar á dag.