Þjóðverjinn Ralf Schumacher á Williams BMW-bifreið sinni vann annað mót sitt í röð í gær.
Þjóðverjinn Ralf Schumacher á Williams BMW-bifreið sinni vann annað mót sitt í röð í gær.
RALF Schumacher hjá Williams hafði mikla yfirburði er hann ók til sigurs í franska kappakstrinum í Magny Cours. Fyrir viku vann hann Evrópukappaksturinn í Nürburgring og er því á mikilli siglingu. Sem og Williamsliðið sem tekið hefur stórstígum framförum í sumarbyrjun því annað mótið í röð átti það tvo fyrstu bíla á mark. Virðast þátttaskil hafa orðið í Nürburgring og liðið lætur aldeilis til sín taka í keppninni um heimsmeistaratitla bílsmiða og ökuþóra.
Ralf Schumacher hóf keppni á ráspól, náði góðu starti og hafði forystu alla leið á mark. Vann hann sinn sjötta sigur frá því hann hóf keppni í Formúlu-1 með Jordanliðinu árið 1997. Félagi hans Juan Pablo Montoya átti einnig gott viðbragð, svo og Kimi Räikkönen hjá McLaren sem hóf keppni fjórði og komst fram úr Michael Schumacher á leið inn í fyrstu beygju. Heimsmeistarinn sneri hins vegar á McLaren-þórana með því að stoppa fimm hringjum seinna en þeir í þriðja og síðasta þjónustustoppi sínu, en þá komst hann fram úr Kimi Räikkönen og David Coulthard og jók því forystu sína á Räikkönen í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra um eitt stig í átta. Coulthard var í mikilli sókn og hafði dregið félaga sinn uppi, sem þá var þriðji, er hann stoppaði síðasta sinni. Mistókst bensínáfylling hjá honum herfilega; fyrst kom ekkert úr bilaðri dælu og síðan ók hann af stað með bensínslöngu seinni dælunnar enn fasta við bílinn. Eftir á sagði Coulthard að atvikið hefði hugsanlega kostað sig þriðja sætið í keppninni.

Mark Webber hjá Jagúar stóð sig vel, jafnaði sinn besta árangur í keppni í ár með sjötta sæti, en í sama sæti varð hann í Nüburgring fyrir viku. Komst hann og upp fyrir Giancarlo Fisichella hjá Jordan og Jenson Button hjá BAR - en þeir féllu báðir úr leik í dag - í stigakeppni ökuþóra og er í níunda sæti. Rubens Barrichello hjá Ferrari snarsneri bíl sínum á fyrsta hring og féll niður í 18. sæti en ók grimmt alla leið og með vel útfærðri keppnisáætlun - var sá eini af ökuþórum toppliða sem tók aðeins þrjú þjónustustopp - og lauk keppni í sjöunda sæti. Á hann því sinn þátt í að Ferrari hefur enn smáforskot í stigakeppni bílsmiða. Lokastigið vann heimamaðurinn Olivier Panis hjá Toyota en hann varð áttundi á mark. Brasilíumaðurinn Antonio Pizzonia hjá Jagúar stóð sig betur nú en jafnan, varð í 10. sæti.

Mirandi á undan Jordan

Athygli vekur annars að Minardibílarnir komust ekki bara báðir á mark, heldur á undan Jordan og rétt á eftir Sauberbílunum, sem aðeins hafa einu sinni lokið keppni í stigasæti frá í Brasilíukappakstrinum er Nick Heidfeld varð áttundi í Nürburgring. Fljótlega varð ljóst var hvert stefndi varðandi þjónustuhlé sem eru mun fleiri í ár hjá flestum ef ekki öllum liðum en í fyrra, og ræður breytt fyrirkomulag tímatöku þar mestu um. Pizzonia stöðvaði fyrstur ökuþóranna sem urðu meðal 10 fremstu, kom inn í lok 14. hrings. Coulthard stoppaði á næsta hring en aðrir af þeim fremstu á 17. og 18. hring af 70. Gekk stopp Coulthards einstaklega vel og gerði honum kleift að vinna sig fram úr Michael Schumacher. Räikkönen stoppaði fyrstur fremstu manna öðru sinni, í lok 31. hrings og félagi hans stoppaði á næsta hring, en Montoya á þeim 34. og Schumacherbræðurnir á 35. hring. Montoya dró verulega á félaga sinn í lok annarrar aksturslotu og í slag um þriðja sæti stefndi milli McLaren-félaganna Räikkönen og Coulthard, en ekkert varð úr því vegna mistaka í lokastoppi Coulthards.

Fernando Alonso hjá Renault var kominn í sjötta sæti er vélarbilun felldi hann úr leik á 44. hring og á þeim næsta biðu sömu örlög Giancarlo Fisichella hjá Jordan. Þegar hér var komið sögu hafði Barrichello mjakast upp í áttunda og síðasta stigasætið og rétt á eftir stóðu eldtungur undan vélarhlíf Renaultbíls Jarno Trulli. Tveir starfsmenn McLaren-liðsins féllu um koll er Coulthard hugðist taka af stað úr hinu misheppnaða stoppi á 49. hring. Tapaði hann miklum tíma og Michael Schumacher tókst að komast fram úr honum og reyndar Räikkönen einnig er hann stoppaði þriðja sinni nokkrum hringjum seinna, eða í lok 53. hrings. Räikkönen varð síðan fyrir því að bremsudiskur bilaði svo hann hafði nær engar bresmur síðustu þrjá hringina. Það sem eftir var "krusuðu" Williamsbílarnir til öruggs sigurs og að því er virtist fyrirhafnarlítils. Eru ökuþórar þess greinilega til alls vísir og mótin í Magny Cours og Nürburgring fyrir viku eru markverð sakir þess að í hvorugu þeirra átti Ferrariliðið möguleika á sigri; hinir nýju F2003-GA fákar hafa ekki sömu yfirburði og 2002-bíll liðsins, sem fyrst og fremst er þó til marks um framfarir annarra liða. Einnig á þar hlut að máli að Michelin virðist hafa náð forskoti á Bridgestone í keppni dekkjaframleiðendanna; þeirra barðar virðast gagnast betur sem stendur.

Ágúst Ásgeirsson skrifar