HANN var heldur betur skrautlegur leikur Þórs og Stjörnunnar sem leikinn var á laugardaginn. Mikill pirringur var í leikmönnum frá fyrstu mínútu og baráttuhugur. Var því lítið gefið eftir. Pústrar voru algengir, leikmenn tuðuðu stanslaust í dómaranum og spjöldin hrönnuðust upp. Knattspyrnan sem boðið var upp á var ekki í háum klassa en þó átti hvort lið sínar góðu rispur. Leiknum lauk, 1:1, og hafa Þórsarar því ekki unnið leik á heimavelli í sumar.
Í fyrri hálfleik voru það Stjörnumenn sem réðu ferðinni úti á vellinum en áttu erfitt með að skapa sér færi. Þeir skoruðu svo á 21. mínútu eftir mikinn atgang í vítateig Þórs. Eftir tvö skot sem hrukku af varnarmúr Þórs barst boltinn til Brynjars Sverrissonar sem afgreiddi hann snyrtilega í markið. Brynjar hefði getað bætt við tveimur mörkum fyrir hlé en Atli Rúnarsson sá við honum og varði skot hans.

Þórsarar mættu mjög ákveðnir í síðari hálfleikinn og fyrstu 15 mínúturnar lá Stjarnan í vörn. Pétur Kristjánsson fékk þá tvö dauðafæri sem honum tókst ekki að nýta. Á 59. mínútu byrjaði svo hasarinn fyrir alvöru. Þá hreinlega jarðaði Bjarki Guðmundsson, markvörður Stjörnunnar, hinn kornunga Þórsara Hallgrím Jónasson í vítateignum. Eftir eitthvað hnoð þeirra á milli hrinti Bjarki Hallgrími og steig svo ofaná hann í þokkabót, þannig að bera þurfti Hallgrím af velli.

Þórsarar fengu vitaskuld vítaspyrnu sem Jóhann Þórhallsson skoraði úr. Fátt markvert gerðist svo í leiknum ef undan eru skildar síðustu mínúturnar. Brynjar Sverrisson fékk að vísu rautt spjald nýsestur á bekkinn eftir útafskiptingu, og hefur væntanlega sagt nokkur vel valin orð um dómgæsluna. Stjarnan reyndi að knýja fram sigur og átti tvö hörkuskot sem lentu bæði í varnarmönnum Þórsara. Eftir hornspyrnu að marki Þórs lá svo við að uppúr syði eftir að Atla Rúnarssyni og Ólafi Gunnarssyni lenti saman. Ekki var allt búið enn því á 95. mínútu ætlaði Atli Rúnarsson að hreinsa frá marki sínu fyrir utan vítateiginn. Ekki vildi betur til en svo að hann spyrnti að því er virtist í hönd aðvífandi Stjörnumanns.

Boltinn barst til Valdimars Kristóferssonar sem sendi hann með glæsilegu skoti í markslána og inn. Að sjálfsögðu fagnaði Valdimar ógurlega en boltinn skoppaði út úr markinu og á einhvern óskiljanlegan hátt dæmdi aðstoðardómarinn ekki mark. Í staðinn ruku Þórsarar í sókn og eftir gróft brot á einum þeirra var annar Stjörnumaður sendur í bað. Þórsarar hefðu svo getað stolið sigrinum í lokin en Jóhann skallaði yfir af markteig. Stjörnumenn voru illa vonsviknir í leikslok og ekki nema von. Þeir voru betra liðið, gáfu Þórsurum víti og voru rændir marki í blálokin.

Maður leiksins:

Ólafur Gunnarsson, Stjörnunni.

Einar Sigtryggsson skrifar