Framarinn Ingvar Ólason kom við sögu í báðum mörkum sinna manna gegn Val í gær. Fyrst fiskaði hann vítaspyrnu og skoraði svo sigurmarkið undir lokin. Hér er Ingvar í baráttu við bræðurna Sigurbjörn og Jóhann Hreiðarssyni.
Framarinn Ingvar Ólason kom við sögu í báðum mörkum sinna manna gegn Val í gær. Fyrst fiskaði hann vítaspyrnu og skoraði svo sigurmarkið undir lokin. Hér er Ingvar í baráttu við bræðurna Sigurbjörn og Jóhann Hreiðarssyni.
FRAMARAR nældu sér í þrjú dýrmæt stig þegar þeir höfðu betur gegn Valsmönnum, 2:1, í viðureign gömlu stórveldanna á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Líkt og í leiknum við FH á dögunum skoruðu Framarar tvö mörk á lokamínútum leiksins og með sigrinum þéttist staðan enn frekar í deildinni. Fram er þó sem fyrr í neðsta sæti með 8 stig en aðeins átta stig skilja Fram og topplið Fylkis en Framarar eiga leik til góða við KA.
Það stefndi allt í 50. sigur Vals á Fram á Íslandsmótinu frá upphafi. Valsmenn höfðu verðskuldaða forystu en á síðustu tólf mínútum leiksins snerist stríðsgæfan á band Framara. Eftir að Bolvíkingurinn Háldán Gíslason hafði komið Valsmönnum yfir í fyrri hálfleik með fyrsta marki sínu í deildinni í ár jöfnuðu Framarar metin þvert gegn gangi leiksins með marki úr umdeildri vítaspyrnu. Baldur Bjarnason, sem nýkominn var inná sem varamaður, átti snotra sendingu inn í vítateig Valsmanna á Ingvar Ólason. Ingvar átti í höggi við Guðna Rúnar Helgason, varnarmann Vals, og féll við og Kristinn Jakobsson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Dómur sem virkaði mjög strangur en Ágúst Gylfason framkvæmdi spyrnuna og þessari öruggu vítaskyttu brást ekki bogalistin. Hann jafnaði gegn sínum gömlu félögum og aðeins sjö mínútum síðar fögnuðu Framarar sigurmarkinu þegar skot Ingvars Ólasonar fór í varnarmann og skaust þaðan í netið.Valsmenn trúðu vart sínum eigin augum enda höfðu þeir fram að jöfnunarmarkinu verið með tögl og hagldir á vellinum og ekkert í stöðunni sem benti til þess að Safamýrarpiltar fengju stig.

Leikur gömlu risanna í austurbæ Reykjavíkur reis annars ekki mjög hátt og báðir mega þeir muna sinn fífil fegurri. Framarar byrjuðu leikinn með ágætum. Freyr Karlsson fékk á fyrstu mínútunni gott færi en skaut yfir Valsmarkið og á 20. mínútu gerði Ólafur Þór vel í því að verja skalla frá Ingvari Ólasyni. Eftir það fóru Valsmenn að sækja í sig veðrið og réðu að mestu leyti gangi leiksins. Frömurum gekk illa að halda boltanum innan liðsins og Valsmenn áttu auðvelt með að brjóta niður sóknir þeirra. Þó svo að Hlíðarendapiltar hafi ráðið ferðinni gekk þeim illa að skapa sér færi og markið sem Hálfdán skoraði skrifast algjörlega á Gunnar, markvörð Framara.

Valsmenn hófu síðari hálfleikinn með þó nokkrum látum. Á fyrstu andartökum hálfleiksins skaut Hálfdán yfir í góðu færi og Jóhann G. Möller fékk upplagt færi á 60. mínútu en Gunnar Sigurðsson sá við honum og varði vel í horn. Steinari Þór Guðgeirssyni þjálfara Framara leist ekki á blikuna og á skömmum tíma gerði hann þrjár breytingar á liði sínu. Þorbjörn Atli Sveinsson, Baldur Bjarnason og Kristján Brooks voru sendir á vettvang til að fríska upp á leik liðsins. Ekki virtust þessar skiptingar ætla að bera neinn ávöxt. Valsmenn héldu undirtökunum og rétt áður en Ágúst jafnaði úr vítaspyrnunni fékk Hálfdán kjörið tækifæri til að gera út um leikinn. Hann slapp inn fyrir vörn Framara en Gunnar varði fast skot hans meistaralega vel og bætti þar sannarlega fyrir mistök sín í fyrri hálfleiknum. Það er kannski of dúpt í árinni tekið að tala um rán Framara en lukkudísirnar voru svo sannarlega með þeim bláklæddu. Fyrst jafnaði Ágúst metin úr vítaspyrnunni vafasömu og Ingvar skoraði svo sigurmarkið með aðstoð varnarmanns Vals. Valsmenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin. Ólafur Þór markvörður fór í fremstu víglínu en allt kom fyrir ekki. Framarar fögnuðu sætum sigri, sínum fyrsta á heimavelli í ár og öðrum í röð eftir skellinn í Eyjum, 5:0.

Framarar geta ekki glaðst yfir neinu öðru en stigunum þremur. Leikur liðsins var ansi tilviljunarkenndur og á köflum mjög ómarkviss og víst er að með álíka spilamennsku verða Framarar í því hlutverki enn eitt árið að forðast fall. Eggert Stefánsson átti ágætan leik í vörninni, Ingvar Ólason og Ágúst Gylfason voru duglegir á miðjunni en sóknarmenn liðsins náðu sér ekki á strik.

Valsmenn geta svo sannarlega nagað sig í handarbökin en þeir léku á köflum ágætlega. Þeir köstuðu stigunum hreinlega frá sér og í stað þess að skjótast upp í þriðja sæti deildarinnar fóru þeir í áttunda sæti. Guðni Rúnar Helgason var fastur fyrir í vörninni og batt hana vel saman, Sigurður Sæberg og Sigurbjörn áttu góða spretti og Hálfdán stóð vel fyrir sínu í fremstu víglínu. Valsmenn fóru hins vegar afar illa með föstu leikatriðin sín og til marks um það fóru allar 13 hornspyrnur þeirra fyrir ofan garð og neðan.

Guðmundur Hilmarsson skrifar