TALSMENN Norges Fiskarlag (NF), sambands norskra útgerðarmanna, hafa lýst yfir óánægju með samning Íslands og Noregs um norsk-íslenska síldarstofninn.
TALSMENN Norges Fiskarlag (NF), sambands norskra útgerðarmanna, hafa lýst yfir óánægju með samning Íslands og Noregs um norsk-íslenska síldarstofninn. Reidar Nilsen, formaður NF, segir norska útgerðarmenn hafa misst trúna á raunverulegan pólitískan vilja norsku ríkisstjórnarinnar til að knýja fast á um hagsmuni norska sjávarútvegsins og ná fram sanngjörnum samningum. "Ekkert samráð hefur verið haft við okkur varðandi þessar viðræður og við fáum okkar fréttir um þær í gegnum fjölmiðlana," segir Nilsen í samtali við Fiskeribladet.

Viðræðurnar við íslensk stjórnvöld leiddu til þess að Norðmenn fá einu prósenti meira af síldarkvótanum gegn því að íslensk skip fái fullan aðgang til að veiða síldarkvóta sinn á Svalbarða- og Jan Mayen-miðum.

Hefur Reidar Nilsen krafist þess að hitta bæði forsætis- og utanríkisráðherra Noregs að máli vegna þessa máls til að ítreka hagsmuni norsks sjávarútvegs.