Í sunnudagsútgáfu enska dagblaðsins The People er ítarleg úttekt á Íslandsævintýri knattspyrnukappans Lees Sharpes sem lék með Grindavík í upphafi tímabilsins.
Í sunnudagsútgáfu enska dagblaðsins The People er ítarleg úttekt á Íslandsævintýri knattspyrnukappans Lees Sharpes sem lék með Grindavík í upphafi tímabilsins. Í viðtalinu segir Sharpe meðal annars að hann hafi misst áhugann á knattspyrnu en það hafi hins vegar ekki gerst í Grindavík heldur á undanförnum árum. Hann segir að hann sé hættur knattspyrnuiðkun og ætli að snúa sér að öðru.

Þá er einnig fjallað um agabrotið sem leikmenn Grindvíkinga voru staðnir að snemma á leiktíðinni. Þar tekur Gauti Dagbjartsson, einn af þeim sem sáu um að fá Sharpe til landsins, sökina á sig. "Hinir strákarnir í liðinu þekktu reglurnar en Sharpe ekki. Því tek ég sökina á mig að hafa ekki sagt Sharpe frá reglum liðsins. Grindavík er lítill bær og þar fréttist allt slíkt."

Ingvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Grindavíkurliðsins, sagði í samtali við enska dagblaðið að meiðsli aftan í læri hefðu valdið því að Sharpe fór frá Grindavík en ekki agabrot. "Sharpe stóð sig vel áður en hann meiddist en það mun taka meiðslin fjórar til sex vikur að gróa og þá verður það orðið of seint fyrir okkur." Í lok greinarinnar er sagt að Sharpe vonist til þess að fá hlutverk sem stjórnandi spjallþáttar í sjónvarpi í heimalandi sínu.

Frá því að Sharpe hélt af landi brott hefur Grindavík sigrað í þremur leikjum í röð, tveimur í deildinni og einum í bikarkeppninni.