MOKVEIÐI á karfa hefur verið að undanförnu djúpt út af Breiðafirðinum. Línu vegna veiða á úthafskarfa var breytt fyrir nokkru og geta skipin nú sótt í hann nær landinu en áður. Var mörkunum breytt til að auðvelda íslenzku skipunum veiðarnar.
MOKVEIÐI á karfa hefur verið að undanförnu djúpt út af Breiðafirðinum. Línu vegna veiða á úthafskarfa var breytt fyrir nokkru og geta skipin nú sótt í hann nær landinu en áður. Var mörkunum breytt til að auðvelda íslenzku skipunum veiðarnar. Skipin taka karfann á þessum slóðum í botntroll, ekki flottroll eins og tíðkast á úthafskarfanum, en það gæti bent til þess að verið sé að veiða djúpkarfa en ekki úthafskarfa.

"Það er alveg ljóst í mínum huga að þarna er einfaldlega verið að veiða djúpkarfa, ekki úthafskarfa," segir Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. "Mér finnst afar einkennilega að þessu staðið. Það er engu líkara en að verið sé að færa línuna inn í hagsmunaskyni fyrir einhverjar ákveðnar útgerðir, sem hafa átt eftir töluvert af kvótanum. Ég hef oft verið á veiðum á þessum slóðum og við höfum alltaf veitt djúpkarfa þar í botntroll. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé eitthvað öðruvísi nú, þótt þessi karfi eigi að heita úthafskarfi. Ég skil ekki hvers vegna það er verið að skipta karfastofnunum í þrennt, úthafskarfa, djúpkarfa og gullkarfa og hafa skiptinguna svo að engu. Það væri þá bara miklu nær að hafa bara einn pott innan landhelgi og annan fyrir utan og fara eftir henni. Það hefur þurft að takmarka sókn í djúpkarfann en með þessu virðist sem engin þörf sé á því lengur," segir Árni Bjarnason.