HAUKAR unnu sinn annan leik í röð í 1. deild karla þegar þeir lögðu Leiftur/Dalvík að velli á laugardaginn, 5:0,á heimavelli. Gestirnir að norðan voru tveimur leikmönnum færri nærri helming leiksins og því var róðurinn þeim erfiður. Þeir eru í nokkuð slæmri stöðu, eru í fallsæti með aðeins sjö stig en Haukar hoppuðu upp um fjögur sæti við sigurinn, eru sem stendur í fjórða sæti.
Haukarnir fengu óskabyrjun því að Árni Thor Guðmundsson, varnarmaður Leifturs/Dalvíkur, varð fyrir því óhappi að skora í sitt eigið mark strax á 3. mínútu. Eftir markið var leikurinn jafn, liðin skiptust á að sækja án þess að skapa sér marktækifæri. Jóhann Traustason í liði norðanmanna fékk upplagt færi til að jafna metin um miðjan hálfleikinn þegar hann var skyndilega staddur á auðum sjó fyrir framan mark Hauka eftir fyrirgjöf. Jörundur Kristinsson í marki heimamanna sá við Jóhanni og varði slakt skot hans. Haukar náðu smám saman tökum á leiknum og sóknarþunginn jókst. Heimamenn juku forystu sína í 2:0 þegar Kristján Björnsson skoraði úr víti sem dæmt hafði verið á Sandor Fores fyrir að handleika knöttinn innan teigs.

Gísli Jóhannsson, dómari leiksins, hafði í nægu að snúast í upphafi síðari hálfleiks. Þegar 50 mínútur voru liðnar af leiknum var Fores sendur í bað þegar hann fékk annað gula spjald í leiknum og aðeins mínútu síðar var það Helgi Þór Jónasson sem fór sömu leið. Haukarnir nýttu sér liðsmuninn vel því strax í næstu sókn fengu þeir vítaspyrnu sem Kristján Ómar skoraði úr. Leikurinn fór að mestu leyti fram á vallarhelmingi Leifturs/Dalvíkur það sem eftir lifði leiksins en Haukarnir virtust þó eiga í nokkrum vandræðum með að brjóta niður varnarmúr gestanna. Heimamönnum tókst þó að finna glufu á 75. mínútu þegar Ómar Karl Sigurðarson slapp einn inn fyrir vörn norðanmanna og skoraði fjórða mark Hauka. Birgir Rafn Birgisson innsiglaði stórsigur þegar hann skoraði fimmta mark Hauka beint úr aukaspyrnu á 83. mínútu.

Maður leiksins: Goran Lukic, Haukum.

Benedikt Rafn Rafnsson skrifar