"Það er nauðsynlegt fyrir stjórnendur að koma saman og skiptast á skoðunum," segir Anna Margrét Marinósdóttir.
"Það er nauðsynlegt fyrir stjórnendur að koma saman og skiptast á skoðunum," segir Anna Margrét Marinósdóttir.
Alþjóðlegt námskeið fyrir íslenska yfirstjórnendur verður í fyrsta sinn haldið á Íslandi í haust. Færustu sérfræðingar á sviði stjórnunar ætla að hjálpa stjórnendum að auka samkeppnishæfni sína og fyrirtækja sinna.
YFIRSTJÓRNENDUR íslenskra fyrirtækja fá í fyrsta sinn tækifæri til að sækja svokallað AMP-námskeið hérlendis í október. AMP stendur fyrir Advanced Management Program og eru námskeiðin ætluð reynslumiklum stjórnendum. Anna Margrét Marinósdóttir, verkefnastjóri hjá Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík, hefur undanfarna mánuði staðið í ströngu við að skipuleggja námskeiðið. "Þessi námskeið eru haldin um allan heim og eru miðuð við yfirstjórnendur með langa reynslu að baki. Þarna geta stórlaxarnir í fyrirtækjunum komið saman og rætt málin undir handleiðslu færustu sérfræðinga."

Námskeiðið verður haldið í fjórum tveggja daga lotum og lýkur í maí 2004. Stjórnendaskólinn hefur fengið fjóra prófessora frá virtum háskólum sem allir hafa mikla reynslu af AMP-námskeiðum. Fyrstu lotuna kennir Joe Pons sem sérhæfir sig í markaðsmálum, en hann hefur kennt við IESE Business School í Barcelona. Luis M. Huete sérhæfir sig í þjónustustjórnun og viðskiptavinatengslum og kennir bæði við Harvard og IESE. Fjármálalotan verður á hendi James C. Ellert sem kennir m.a. við IMD í Sviss og University of Chicago. Síðustu lotu námskeiðsins er stýrt af Karel Cool frá Insead-háskólanum í Frakklandi en hann mun leiðbeina stjórnendum um stefnumótun og hvernig hægt er að auka samkeppnishæfni og frammistöðu í starfi.

Íslenskur veruleiki ræddur

"Stjórnendaskóli HR er búinn að fá til liðs við sig virta og þekkta kennara utan úr heimi, enda lögðum við áherslu á að ná bestu kennurunum frá þekktustu viðskiptaskólunum. Við þekkjum dæmi um að íslenskir stjórnendur hafa farið á sambærileg námskeið erlendis, en það er bæði dýrt og tímafrekt. Við lítum svo á að við séum að veita þeim tækifæri á að ræða sín á milli um þau viðfangsefni sem þeir kljást við í starfi," segir Anna Margrét.

Hún segir að námskeiðið verði að miklum hluta byggt upp á umræðuverkefnum (e. case studies). Hópnum, eða bekknum, á að skipta upp í minni hópa sem ræða tiltekin viðfangsefni og vandamál sín á milli. "Þarna er verið að skiptast á skoðunum og menn fá tækifæri til að hlusta á sjónarmið annarra, vega þau og meta. Eftir að hópurinn hefur lokið umræðum er farið inn í bekk þar sem leiðbeinandinn stýrir umræðum."

Þátttakendafjöldi á námskeiðinu verður takmarkaður og inntökuskilyrði verða ströng, að sögn Önnu Margrétar. "Það verða vissulega einhverjir fyrirlestrar en aðaláherslan verður á verkefnin og umræðu um þau. Námskeiðið snýst um stjórnun og ákvarðanatöku, ekki um að ljóstra upp viðskiptaleyndarmálum. Stjórnendur verða að ná að tileinka sér nýjan hugsanahátt til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja sinna. Á svona námskeiðum koma saman stjórnendur með ólíkan bakgrunn og af ýmsum sviðum viðskiptalífsins, en allir þurfa að fást við svipuð vandamál tengd stefnumörkun og framtíðarsýn fyrirtækja. Reynslan er auðvitað mikill skóli en með svona námskeiði fá þeir nýja sýn á vandamálin. Þeim er nauðsynlegt að geta rætt við aðra í sömu stöðu," segir Anna Margrét.

Millistjórnendur mennta sig frekar

Að sögn Önnu Margrétar eru millistjórnendur í íslenskum fyrirtækjum miklu duglegri að sækja sér viðbótarmenntun en yfirstjórnendur. "Sumir yfirstjórnendur eru að vakna upp við þann vonda draum að þeir eiga á hættu að sitja eftir. Millistjórnendur fást meira við vandamál sem koma upp frá degi til dags. Yfirstjórnendur þurfa að horfa lengra fram í tímann," segir Anna Margrét.

Í október munu íslenskir stjórnendur í fyrsta sinn geta sótt námskeið af þessu tagi án þess að yfirgefa landið. Anna Margrét vonar að þetta verði þó ekki í síðasta sinn. "Leiðbeinendurnir eru margir hverjir búnir að kenna á svona námskeiðum í áratugi. Það er einstakt tækifæri að fá svo reynslumikla menn hingað til lands," segir Anna Margrét.