ÍSLENDINGAR hafa löngum verið iðnir við að eyðileggja. Ekki voru þeir fyrr komnir til landsins en þeir fóru að eyða gróðri. Sjaldan hafa þeir lokið við að byggja nokkuð upp áður en þeir ráðast í að rífa það niður. Landbúnaðurinn er dæmi um þetta.
ÍSLENDINGAR hafa löngum verið iðnir við að eyðileggja. Ekki voru þeir fyrr komnir til landsins en þeir fóru að eyða gróðri. Sjaldan hafa þeir lokið við að byggja nokkuð upp áður en þeir ráðast í að rífa það niður. Landbúnaðurinn er dæmi um þetta. Íslenskir bændur gleyptu við iðnbyltingunni, vélvæddu af kappi, byggðu yfir búsmalann - og sjálfa sig. Reist var áburðarverksmiðja í Gufunesi. Allt skyldi heimafengið. Á undraskömmum tíma varð til tæknivæddur afkastamikill landbúnaður. Bændurnir áttu verslun, voru stofnendur og undirstaða kaupfélaganna. Sveitirnar voru sjálfbært menningarsamfélag. Hvergi var svo aumur sveitahreppur að ekki væri starfandi leikfélag, kór eða einhver menningarstarfsemi. Félagslíf blómstraði. Trúin á framtíðina var allsráðandi.

Allt í einu breyttist allt. Hingað og ekki lengra. Gefin voru merki um að snúa við blaðinu. Ákafinn að rífa þetta allt niður var engu minni en við uppbygginguna tveimur áratugum áður. Allt er þetta nú meira og minna hrunið. Hvað leiðir af öðru. Nú eru það sláturhúsin. Í loðdýrarækt og fiskeldi ætluðu menn að verða mýríkir á augabragði. Stjórnmálamenn urðu heldur fámálir og flóttalegir til augnanna þegar þetta var allt fyrir bí. Mesta furðu vekur að þarna er sama kynslóðin að verki. Sama fólkið.

Útvegurinn og iðnaðurinn

Útvegurinn var einnig í eigu hinna mörgu. Menn áttu sína báta, verkuðu sjálfir eða lögðu upp hjá öðrum sem jafnvel voru eingöngu í verkun. Hver vann að sínu. Sjálfbært atvinnu- og menningarsamfélag náði allt í kringum landið. Nóg vinna, nógir aurar - fyrir alla, ekki bara suma.

Hvernig er þetta orðið? Það þarf ekki mörg orð. "Samherji og Úreldingarsjóður" duga prýðilega. Þegar Íslendingar brutust útúr sjálfskapaðri einangrun frá umheiminum var Eimskipafélagið óskabarn þeirra. Öllum fraktskipum félagsins er nú siglt undir erlendum hentifánum. Nú er þetta skilgetna óskabarn okkar komið með puttana í sjávarútveginn og afleiðingarnar farnar að koma fram. Verður togurunum ekki flaggað út líka? Skyldi enda með að Eimskip kaupi allar jarðir á Suðurlandi og taki að sér að reka fyrir okkur landbúnaðinn? Hver veit?

Skipasmíðastöðin í Garðabænum var rifin í fyrra. Þarna voru smíðuð mjög góð skip. Önnur var á Ísafirði. Hrun skipaiðnaðarins er járniðnaðinum mikil blóðtaka.

Fyrirtæki í Hafnarfirði framleiddi bestu eldavélar í heimi. Þær hétu Rafha. Ekki meir, búið.

Ullar-, skinna- og skóiðnaðurinn á Akureyri er hruninn. Á undraskömmum tíma tókst að koma því öllu í hundana. Gamlir menn þar í bæ bresta í grát ef þetta er rifjað upp. Það er alveg sannleikur. Á Akureyri ganga menn nú háskólamenntaveginn. Erfðagreining, hin nýja von Íslendinga, segir upp menntafólki í hundraðatali.

Í stóru húsi inná Laugavegi voru lengi framleidd afbragðs húsgögn. Því var að sjálfsögðu hætt. Þar er nú aðsetur ríkisskattstjóra, enda miklu nær að innheimta skatta af innflutningi en framleiða húsgögn.

Ef Íslendingar koma einhverju af stað sem þeir ekki eyðileggja fara þeir með það úr landi. "Útrás Íslendinga" eru tískuorð hjá Ólafi forseta. Iðnaðarráðherra átti vart orð í gleði sinni þegar Límtré á Flúðum opnaði límtrésverksmiðju í Portúgal. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjármagnaði dæmið. Hagurinn hlýtur að vænkast.

Á Reykjanesi var einhvern tíma framleitt eitthvert besta salt jarðar. Ætli það sé enn?

Einu sinni voru kaupmenn á hverju götuhorni. Það voru heildsalar og stórkaupmenn, lyfsalar og apótek. Nú er öldin önnur.

Fyrir nokkru komu þjóðir heims sér saman um að hætta að menga lofthjúp jarðarinnar. Var nú illt nærri fyrir Íslendinga sem spurðu í angist: Á nú að banna okkur að eyðileggja? Þetta var á fundi í Japan.

Var nú lagst í víking að sannfæra heiminn um hve eyðileggingarstarf Íslendinga væri þeim mikil lífsnauðsyn. Umhverfisráðherrann fór fyrir liðinu. Ekki var látunum linnt fyrr en veröldin þóttist sjá þetta líka og sá aumur á landanum.

Varð nú kátt í hverjum hól á Ísafróni. Við máttum vera sóðarnir í heiminum og leyfa það öðrum sem ekki mega það heima hjá sér. Ekki var boðanna beðið í mestu eyðileggingarherför gegn íslenskri náttúru - fyrr - en vonandi ekki síðar. Eiturspúandi verksmiðjur sem hvergi fá annars staðar að vera eru byggðar í óðaönn. Svo hart er fram í þessu gengið að hriktir í stoðum annarra atvinnugreina og menn missa vinnuna hver af öðrum.

Íslendingar eyðileggja nær allt sem þeir koma nálægt. Fyrr eða síðar. Þeir forðast að gera nokkuð á eigin spýtur. Það eina sem blífur er erlend uppbygging, álframleiðsla og hermang. Það horfir ekki vel með hermangið. Forsætisráðherra nær ekki nokkru sambandi við Bandaríkjaforseta. Eins gott að það verði ekki stríð.

Eftir Ámunda Loftsson

Höfundur er verktaki.