TÖLUVERÐ umræða hefur verið undanfarið í fjölmiðlum um lyfjamál sem spratt af grein Björns Inga Hrafnssonar í Morgunblaðinu 28. júní sl. Vissulega er hollt að ræða um lyfjamál öðru hverju, en að þessu sinni hefur umræðan verið í senn ómálefnaleg og vond.
TÖLUVERÐ umræða hefur verið undanfarið í fjölmiðlum um lyfjamál sem spratt af grein Björns Inga Hrafnssonar í Morgunblaðinu 28. júní sl. Vissulega er hollt að ræða um lyfjamál öðru hverju, en að þessu sinni hefur umræðan verið í senn ómálefnaleg og vond. Settar hafa verið fram fullyrðingar sem eru byggðar á misskilningi eða vanþekkingu. Nefna má fjögur atriði í þessu sambandi:

1.Fjallað er um aukinn lyfjakostnað Landspítala - háskólasjúkrahúss og lyfsölukeðjum kennt þar óbeint um, hvernig sem það má nú vera í ljósi þess að sjúkrahús kaupa sín lyf af heildsölum en ekki lyfsölum.

2.Ekki er tekið nógu skýrt fram að ein helsta ástæða fyrir auknum lyfjakostnaði Landspítala - háskólasjúkrahúss er sú staðreynd að árið 2001 var afgreiðsla S-lyfja alfarið flutt úr almennum apótekum yfir á sjúkrahús sem misstu þá verulegar tekjur og við það var einnig kostnaður færður frá sjúkratryggingum og yfir á sjúkrahúsin.

3.Eingöngu er horft til kostnaðar lyfja en ekki þess þjóðhagslega ávinnings sem hlýst af notkun þeirra, svo sem aukinna lífsgæða, færri innlagna á sjúkrahús, fækkunar veikindadaga og þeirrar staðreyndar að ný og fullkomnari lyf gera mun fleirum kleift að lifa fullkomlega eðilegu lífi í samfélaginu.

4.Lyfjakostnaði er ruglað saman við lyfjaverð enn eina ferðina og fullyrt er að aukinn kostnað megi rekja til hækkandi verðs. 3 júlí sl. bætir síðan eigandi einstaklingsrekins apóteks í bænum gráu ofan á svart með dylgjum í garð lyfsölukeðja. Hann heldur því fram að lyfsölukeðjur breyti lyfjaverði mörgum sinnum á dag og fullyrðir að þessi "keðjufyrirtæki" hafi rannsakað hvaða aldurshópar eða "tegundir" viðskiptavina koma til að versla og á hvaða tímum. Ef svo vill til að ásökunin um að lyfjaverði sé breytt mörgum sinnum á dag í takt við markhópa sé m.a. beint til Lyfju hf. verður að segjast eins og er að skáldlegur hugsunarháttur þessa apótekara ætti að nýtast honum betur í reyfaraskrif en í rekstri. Að láta sér detta í hug að lyfsölukeðja á Íslandi myndi svo mikið sem láta hugann reika að slíkum viðskiptaháttum er út í hött. Á öðrum stað fullyrðir hann að þjónustan sé lakari hjá þeim sem hann kallar keðjuapótek.

Þau jákvæðu áhrif sem frelsi í opnun lyfjabúða árið 1996 hefur haft undanfarin ár hér á landi dyljast engum. Lyfja reið á vaðið með lækkun lyfjaverðs, stórauknu vöruúrvali ásamt fjölbreyttari þjónustu. Í krafti keðjumyndunar og stærðar getur fyrirtækið boðið hagstætt lyfjaverð og góða lyfjafræðilega þjónustu.

Tímarnir hafa breyst og kröfur almennings líka. Nú er gerð krafa til fyrirtækja um að veita sem besta þjónustu og lægsta mögulega verð á hverjum tíma. Við hljótum líka að gera þá kröfu að opinber umræða um lyfjamál sé byggð á málefnalegum grunni en ekki vanþekkingu né dylgjum í garð annarra.

F.h. Lyfju hf.

Eftir Inga Guðjónsson

Höfundur er framkvæmdastjóri.