Í DAG fögnum við, íbúar og starfsmenn Sjálfsbjargarheimilisins í Hátúni 12 í Reykjavík. Það eru tímamót, því heimilið er 30 ára. Við slíkt tækifæri er ekki úr vegi að líta til baka, skoða stöðuna nú og ekki hvað síst að horfa til framtíðar.
Í DAG fögnum við, íbúar og starfsmenn Sjálfsbjargarheimilisins í Hátúni 12 í Reykjavík. Það eru tímamót, því heimilið er 30 ára. Við slíkt tækifæri er ekki úr vegi að líta til baka, skoða stöðuna nú og ekki hvað síst að horfa til framtíðar.

Fortíðin

Máltækið segir: "Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja." Það eru sannindi, sem ber að virða. Heiðursmaðurinn Sigursveinn D. Kristinsson tónskáld stofnaði Sjálfsbjörg á Siglufirði fyrir margt löngu. Þörfin fyrir samtök sem þessi var svo mikil á þeim tíma að ekki leið á löngu áður en Landssamband Sjálfsbjargar var stofnað árið 1959. Þessi samtök hrundu með stórhug sínum og krafti af stað byggingu Sjálfsbjargarhússins og þar skyldi rísa heimili fyrir fatlaða á Íslandi. Fyrsta skóflustungan var tekin árið 1966 og árið 1973 hinn 7. júlí flutti fyrsti íbúinn inn á þetta nýja heimili með aðgengi fyrir fatlaða. Þetta var mikill gleðidagur og fögnuður ríkti, það sýna bæði myndir og frásagnir frá þessum degi. Þá hét heimilið Vinnu- og dvalarheimili Sjálfsbjargar og þar gátu 45 manns dvalið í eigin herbergi. Það voru tímamót í sögu fatlaðra á Íslandi.

Staðan um þessar mundir

Nafni heimilisins hefur verið breytt, það heitir nú Sjálfsbjargarheimilið. Íbúar þess eru 39 talsins, þar af eru tvö rými fyrir skammtímadvöl og eitt rými fyrir sjálfstæða búsetu með stuðningi. Það rými er tilraunaverkefni og gerir það að verkum að sá sem þar býr fær um 30 fm í stað 12,5 fm eins og önnur herbergi heimilisins eru. Sá einstaklingur sem flutti í þetta rými 10. janúar á þessu ári hafði búið á heimilinu frá upphafi og nýtur nú meira sjálfstæðis en áður með eigin eldhús og salerni ásamt því að fá umönnun frá starfsmönnum heimilisins. Það hlýtur að vera stefnan að hver og einn sem býr við mikla fötlun hafi að lágmarki slíkt rými. Undanfarin ár höfum við markvisst unnið að því að bæta vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn og auka sameiginlegt rými fyrir íbúa heimilisins. Við höfum átt því láni að fagna að vera með afbragðs starfsfólk á heimilinu og er starfsaldur hér hár. Þess má geta að tveir úr starfsliðinu hafa unnið hér frá opnunardegi og um þriðjungur þeirra hefur 10 ára starfsreynslu að baki. Hver vinnustaður á sér mikinn auð þar sem góðir starfsmenn eru og skal þeim þakkað hér. Á Sjálfsbjargarheimilinu hefur verið rekin öflug starfsmannastefna og markvisst stefnt að því bæta innra starf íbúum heimilisins til heilla.

Horft til framtíðar

Enginn vafi leikur á, að stefna ber að því að auka rými hvers og eins sem við fötlun býr. Við stöndum frammi fyrir því að húsið er barn síns tíma og eina leiðin til úrbóta er að gera eitt herbergi úr hverjum tveimur. Í því tilraunaverkefni sem ég nefndi hér að ofan flyst íbúinn til í húsinu og fer í 30 fm íbúð úr 12,5 fm herbergi. Með því að stækka rýmin í 25 fm fengju íbúarnir vistlegra húsnæði með salerni og meiri möguleikum, þótt ekki yrði þar eldunaraðstaða. Mögulegt er að innrétta fleiri 25 fm rými hér í húsinu en það tekur langan tíma. Við hljótum þó að stefna að því og sjá til þess í leiðinni að ekki fækki rýmum fyrir fatlaða.

Ég hef um langt skeið gert það að tillögu minni í skýrslu til þings Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, að gert verði ráð fyrir byggingu heimila fyrir fatlaða í nýrri byggð undir Esjurótum. Þar hef ég í huga blandaða byggð sem væri þó á þann veg að hver og einn hefði eigið rými með salerni og eldhúsaðstöðu ásamt því að gengt væri út í eigin garð og/eða verönd. Það er nefnilega ómetanlegt að finna lyktina af nýslegnu grasinu og upplifa vorið koma að ekki sé minnst á skógarilm og fuglasöng. Nú er það svo að sárlega vantar rými fyrir fatlaða sem eru yngri en 67 ára, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Því tel ég brýnt að félagasamtök, ríki og borg snúi bökum saman og leysi þennan vanda myndarlega. Alltaf er verið að skipuleggja ný hverfi og hvet ég ráðamenn mjög til að hafa fatlaða inni í myndinni í því næsta. Í stefnu nýkjörinnnar ríkisstjórnar kemur fram að treysta þurfi stuðning við fatlaða og geðsjúka, m.a. með auknu framboði á skammtímavistun og annari stoðþjónustu. Langveikum verði gert kleift að takast á við veikindi sín með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi. Einnig að haldið verði áfram uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila. Hér er verðugt verkefni fyrir ríkisstjórn þessa lands, að bæta myndarlega úr og ávinna sér þökk og virðingu þeirra sem á þurfa að halda.

Eftir Guðrúnu Erlu Gunnarsdóttur

Höfundur er hjúkrunarforstjóri.