STJÓRN Einingar-Iðju hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda að fresta gerð Héðinsfjarðarganga til ársins 2006.
STJÓRN Einingar-Iðju hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda að fresta gerð Héðinsfjarðarganga til ársins 2006. Telur stjórn félagsins að ákvörðunin muni hafa verulega slæm áhrif á þau byggðarlög sem hún bitnar mest á.

"Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir standi við orð sín og byggi upp traust kjósenda sinna, en valti ekki yfir þá eins og gert er í þessu máli, en því miður verður æ algengara að ekkert er að marka málflutning stjórnmálamanna. Engar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu sem ekki voru auðséðar fyrir kosningar," segir í ályktun Einingar-Iðju og einnig að stjórnin voni að þessi ákvörðun sé ekki forsmekkurinn að efndum stjórnarflokkanna í byggðamálum.