Það er áhyggjuefni að viðskipti í heiminum eru ekki eins blómleg nú og áður, segir m.a. í greininni.
Það er áhyggjuefni að viðskipti í heiminum eru ekki eins blómleg nú og áður, segir m.a. í greininni.
FLÓKNA hluti er oft best að útskýra með einföldum dæmum. Alþjóðavæðingin sem við heyrum tíðum getið um í fjölmiðlum er gott dæmi um þetta.
FLÓKNA hluti er oft best að útskýra með einföldum dæmum. Alþjóðavæðingin sem við heyrum tíðum getið um í fjölmiðlum er gott dæmi um þetta. Í nýrri bók sem Mike Moore fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO ritaði, (A World Without Walls ) tekur hann dæmi sem eru lýsandi fyrir jákvæð áhrif alþjóðavæðingar, alþjóðlegrar verkaskiptingar og það sem af henni hefur hlotist.

Sá hversdagslegi hlutur skrúfan, var fundinn upp í Kína fyrir margt löngu. Fjórtán hundruð ár liðu frá því að Kínverjarnir uppgötvuðu þetta undur og þar til að Vesturlandabúar kynntust því. Kínverjarnir fundu líka upp hjólbörur, tækni sem Vesturlandabúar fréttu fyrst af einni öld síðar.

Nú er öldin önnur

Nú er þessu öfugt farið. Fréttirnar ferðast hratt. Alþjóðleg verkaskipting, markaðsvæðing og tækniframfarir sjá um það. Internet-væðing fjórðungs allra heimila í Bandaríkjunum gekk fimmfalt hraðar fyrir sig en innleiðing símans í sama mæli einhverjum áratugum fyrr. Svipaða sögu má segja af öðrum tækniframförum. Við þekkjum það úr íslensku atvinnulífi. Íslenskur fiskiðnaður hefur oftlega nýtt sér tækni sem hafði rutt sér til rúms í öðrum matvælagreinum. Íslenskar lausnir í fiskiðnaði eru nú notaðar í úrvinnslu landbúnaðarafurða í stórum stíl. Með þessu hafa orðið gríðarlegar framfarir, þannig hafa lífskjörin batnað og þjóðirnar hafið sig upp úr fátæktargildrunum.

Lært af sögunni

Saga 20. aldarinnar færir okkur líka heim sanninn um mikilvægi þess að auka frjáls viðskipti á milli þjóðanna. Almennt eru menn sammála um það nú að efnahagsleg einangrunarhyggja hafi dýpkað og lengt kreppuna miklu um 1930. Skammtímahagsmunir einstakra þjóða, sem miðuðu að því að verja sitt atvinnulíf leiddi til minni heimsviðskipta og jók á neikvæð áhrif kreppunnar. Lærdómurinn sem menn hafa dregið af þessu hefur leitt til stöðugrar viðleitni til þess að auka viðskipti þjóða á milli. GATT-samningar um fríverslun eru gleggsta dæmið um þetta. En mörg hundruð fríverslunarsamninga á milli þjóða og landssvæða eru líka til marks um það sama. Við Íslendingar höfum til að mynda notið þessa í aðgangi okkar að stórum mörkuðum með vörur okkar. Aðild okkar að EFTA og síðar Evrópska efnahagssvæðinu er liður í þessari viðleitni, sem við Íslendingar höfum augljóslega haft hagsmuni af.

Stöðnun í heimsverslun

Það er áhyggjuefni að viðskipti í heiminum eru ekki eins blómleg nú og áður. Á ráðstefnu sem efnt var nýlega til af Alþjóðaþingmannasambandinu og WTO og undirritaður sat, kom þetta einkar skýrt fram. Supachai, núverandi framkvæmdastjóri WTO, vakti þannig athygli á því að á síðasta áratug nýliðinnar aldar hefði vöxtur heimsverslunar numið að jafnaði 6,7%. Árið 2001 dróst hún saman um 1%, jókst síðan um 2,5% í fyrra, en er áætluð svipuð í ár og í fyrra. Þetta er áhyggjuefni og hvetur þjóðirnar til þess að stuðla að auknum viðskiptum að nýju.

Það eykur enn áhuga manna að ómótmælanlega mun þetta sérstaklega gagnast þróunarríkjunum. Alþjóðabankinn metur það svo að afnám allra viðskiptahindrana í vöruviðskiptum myndi auka tekjur þjóðanna um 250 til 650 milljarða bandaríkjadala (20 til 50 þúsund milljarða íslenskra króna). Helmingur ávinningsins rynni til þróunarríkjanna og bryti fátæktarhlekki af 300 milljónum manna.

Þótt enginn sé að ræða um að ná slíkum áfanga, lýsir þetta þó því sem aukið viðskiptafrelsi hefði í för með sér. Fyrir þróunarríki skiptir einfaldlega mestu að fá aðgang að mörkuðum auðugri ríkja, sem í ofanálag geta greitt hærra verð fyrir framleiðsluna.

Í átt til aukinna heimsviðskipta

Nauðsynlegt er að halda ýmsu til haga sem skapað hefur landbúnaðinum sérstöðu í gegnum tíðina. Ekki bara hér á landi heldur einnig almennt.

Landbúnaður hefur haft mikla sérstöðu í viðskiptum þjóða í millum. Það sjáum við einfaldlega á því að tollar og tollígildi á landbúnaðarafurðum eru margfalt hærri en í viðskiptum með aðra framleiðslu. Þróunin stefnir þó í átt til aukinna viðskipta með þessar afurðir. Dæmi um það sást í síðustu lotu viðskiptaviðræðnanna og birtist manni greinilega í umræðum víða á alþjóðlegum vettvangi. Eðlilegt er og sjálfsagt að við Íslendingar hyggjum að því hvert stefna muni í þessum efnum vegna framtíðarstefnumótunar í landbúnaði okkar. Eðlilegt er að vekja þó athygli á ýmsum þáttum í þessu sambandi.

Fyrir það fyrsta. Þó svo að við Íslendingar verjum okkar landbúnað gagnvart alþjóðlegri samkeppni, þá er aðgangur inn á íslenska markaði fyrir alþjóðlegar landbúnaðarvörur, greiður í veigamiklum þáttum. Ekki síst það sem tekur til landbúnaðarframleiðslu sem fer fram í þriðja heiminum. Þar er mest í húfi fyrir þær þjóðir sem mest þurfa á því að halda að njóta auðvelds aðgangs inn á markaði á borð við okkar. Þannig fara ýmsar vörur vandræðalaust inn á íslenska neytendamarkaði, sem búa við hindranir af ýmsum toga í Evrópu, vegna þess að þarlendar þjóðir eru að burðast við framleiðslu á vörutegundum sem eru þeim óhagkvæmar og etja kappi við fátækustu ríki heims.

Aðgangur fyrir fátækustu ríkin

Í annan stað höfum við opnað með sérstökum hætti aðgang fyrir fátækustu ríki heimsins með vörur sínar inn á íslenskan markað. Í dag skiptir þetta kannski ekki beinu máli, en er þó ákveðið tækifæri sem þarna er veitt þessum þjóðum, auk þess sem telja má þetta táknrænan stuðning.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að árétta að landbúnaður hefur jafnan haft mikla sérstöðu í viðskiptum þjóða í millum. Afstaða þjóðanna ræðst af hagsmunum þeirra. Sumar þjóðir eru útflutningsþjóðir á sviði landbúnaðarvara, svo sem Ástralía og Nýja-Sjáland, aðrar veita ríkulega landbúnaðarstyrki sem gera þær hæfari til útflutnings og eru Bandaríkin gott dæmi um það. Annars staðar er þessu öfugt farið. Þannig höfum við fyrir meira en áratug afnumið allan útflutningsstuðning við landbúnað okkar en þurfum að verja okkur, meðal annars vegna sérstöðu búfjárstofna okkar og þess hve þeir eru viðkvæmir fyrir líkt og dæmin sanna.

Um sérstöðu landbúnaðarins

Loks má vitna til ávarps sem fulltrúar fjölmargra bændasamtaka, þar á meðal Bændasamtaka Íslands sendu frá sér 25. október sl. í tilefni af viðræðunum innan WTO um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Þar er dregin upp skýr mynd af sérstöðu landbúnaðarins. Meðal annars er vikið að því að innlend landbúnaðarframleiðsla hafi öryggishlutverk í hverju landi, landbúnaðarframleiðsla þoli illa framleiðslustöðvun, fjölskyldubúrekstur sé víða undirstaða byggðanna og auk þess forsenda skynsamlegrar nýtingar á landsins gæðum, jafnframt því að vera vörn fyrir tiltekna menningararfleifð, fjölbreytni og trygging fyrir stöðugleika og vexti í þróunarríkjum. Af þessu er sú ályktun dregin að alþjóðlegar leikreglur í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði að taka mið af því að þjóðirnar hafi mikið sjálfdæmi um eigin landbúnaðarstefnu.

Af öllu þessu má sjá að mikið er í húfi að vel takist til um næstu áfanga í viðræðulotu innan WTO. Hins vegar er um að ræða margslungið úrlausnarefni, sem menn ætla sér að komast til botns í á næsta ári. Það skiptir miklu máli að vel takist til.

Eftir Einar K. Guðfinnsson

Höfundur er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.