ÍBV og KR gerðu markalaust jafntefli í Eyjum á laugardaginn í 8. umferð Landsbankadeildarinnar þar sem vindurinn réð miklu um gang leiksins. KR-ingar spiluðu með rokinu í fyrri hálfleik og voru sterkari aðilinn en í síðari hálfleik snerist dæmið við, Eyjamenn heldur sterkari en Kári þó allra sterkastur og réðu liðin illa við hann.
KR-ingar byrjuðu vel og strax á sextándu mínútu átti Kristinn Hafliðason góðan skalla að marki Eyjamanna og bjargaði Hjalti Jóhannesson á línu. Eyjamenn vörðust aftarlega og reyndu að sækja hratt á KR-markið þegar færi gafst og í einni slíkri sókn á átjándu mínútu slapp Gunnar Heiðar Þorvaldsson inn fyrir vörn KR og var í sannkölluðu dauðafæri en skot hans fór rétt framhjá. Það lá talsvert á Eyjamönnum það sem eftir lifði hálfleiks og má segja að leikurinn hafi algjörlega farið fram á vallarhelmingi heimamanna. KR náði þó ekki að nýta sér það en næst því komst Sigurður Ragnar Eyjólfsson þegar hann skallaði boltann í stöng Eyjamarksins á síðustu mínútu hálfleiksins.

Leikurinn snerist algjörlega við í seinni hálfleik, Eyjamenn sóttu meira en náðu þó ekki að skapa sér nein hættuleg færi. Þeir reyndu talsvert að skjóta utan af velli og átti Atli Jóhannsson bestu tilraunina þegar aukaspyrna hans fór rétt framhjá marki KR. Unnar Hólm Ólafsson átti svo skalla rétt yfir mark gestanna á 75. mínútu.

Síðustu tíu mínúturnar voru gestirnir sterkari og munaði litlu að þeir næðu að setja mark og stela öllum þremur stigunum á 83. mínútu þegar Sigþór Júlíusson fékk boltann inn í vítateig Eyjamanna eftir frábært spil Bjarka Gunnlaugssonar og Veigars Páls Gunnarssonar en hann hitti ekki boltann úr upplögðu tækifæri.

Fyrsta jafntefli ÍBV í sumar er því staðreynd og verða úrslitin að teljast sanngjörn. Gestunum úr Vesturbænum hefur ekki gengið vel í Eyjum undanfarin ár, þeir höfðu ekki náð í nema eitt stig í síðustu fimm heimsóknum til Vestmannaeyja og geta því verið nokkuð sáttir við dagsverkið þrátt fyrir allt.

Sigursveinn Þórðarson skrifar