Þórdís Geirsdóttir, Keili, og Ólafur Hreinn Jóhannesson, úr Golfklúbbi Setbergs.
Þórdís Geirsdóttir, Keili, og Ólafur Hreinn Jóhannesson, úr Golfklúbbi Setbergs.
ÍSLANDSMÓTI kylfinga 35 ára og eldri lauk á Garðavelli á laugardag þar sem Þórdís Geirsdóttir úr Golfklúbbnum Keili varði titil sinn en hún hefur unnið mótið þau þrjú ár sem það hefur farið fram en í karlaflokki var það Ólafur Hreinn Jóhannesson úr Golfklúbbi Setbergs sem stóð efstur á palli að loknum 54 holum. Þórdís lék á samtals 10 höggum yfir pari, eða 226 höggum, en konurnar léku af rauðum teigum, og Ólafur Hreinn lék á 7 höggum yfir pari, eða á 223 höggum, en leikið var af gulum teigum.
Keppt var í sex flokkum á mótinu og sigraði Hafsteinn E. Hafsteinsson úr Golfklúbbnum Mostra úr Stykkishólmi í 2. flokki karla, Axel Þór Rúdólfsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur í 3. flokki karla og Gunnar Ásbjörn Bjarnason úr Golfklúbbi Bakkakots varð hlutskarpastur í 4. flokki karla. Í 2. flokki kvenna varð Helga Möller, Nesklúbbnum, á besta skorinu. Mótið hófst á miðvikudaginn og var blíðskaparveður að mestu á meðan mótið stóð yfir og voru keppendur tæplega 190 að tölu, flestir í 1. flokki karla.

Golfklúbburinn Leynir stóð að framkvæmd mótsins ásamt Golfsambandi Íslands og í lokahófi keppninnar á laugardagskvöld var það mál manna að "gamla" flokkaskipta Landsmótið væri komið til að vera á ný og áhugi kylfinga á mótinu bæri vott um að mótið myndi aðeins vaxa á næstu misserum.

Þórdís Geirsdóttir hafði nokkra yfirburði í 1. flokki kvenna en hún sagði að þrátt fyrir það hefði hún reynt að leika eins vel og hún gæti. "Þess er ekki langt að bíða að það komi kylfingar með lága forgjöf í okkar hóp á næstu árum og þá mun samkeppnin aukast. Ég hef leikið á öllum þremur mótunum til þessa, enda fékk ég keppnisrétt fyrir þremur árum er ég varð 35 ára. Stemningin er einstök á þessu móti, við vorum níu saman í hópi á gistiheimili hér á Akranesi meðan á mótinu stóð, aðrir voru í tjaldvögnum, fellihýsum og tjöldum við golfvöllinn og það var því allt önnur stemning á þessu móti en t.d. á Íslandsmótinu í höggleik þar sem menn fara "heim að horfa á sjónvarpið" að loknum keppnisdegi. Á þessu móti setjast menn niður og ræða málin, og þá eingöngu um golf, að ég held," sagði Þórdís.

Þórdís er ekki sátt við landsliðsmálin

Staffan Johansson, landsliðsþjálfari Íslands í golfi, hefur ekki séð ástæðu til þess að velja Þórdísi í landsliðið þrátt fyrir að hún hafi sigrað á einu móti á Toyota-mótaröðinni og sé í öðru sæti á stigalistanum að loknum þremur mótum. "Það er mat Staffans að ég sé of gömul fyrir landsliðið en ég er ekki sammála því. Hann hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig standa eigi að vali í landsliðið. Það verður ekki sent landslið kvenna á Evrópumót landsliða þar sem Staffan telur að ekki séu til nógu sterkir einstaklingar hér á landi fyrir það mót, ég er ekki sammála því. Það er gott að byggja upp sterkara landslið en það er samt dapurt að geta ekki sent lið út að þessu sinni," sagði Þórdís.

Beið spenntur eftir keppnisréttinum

Ólafur Hreinn Jóhannesson er fæddur árið 1968 og því gjaldgengur í fyrsta sinn á Landsmót 35 ára og eldri. Sagði golfkennarinn af Setbergsvellinum að hann hefði í raun beðið eftir því að komast á þetta mót. "Ég stefndi að því að sigra og ég er mjög ánægður með titilinn," sagði Ólafur sem hóf að leika golf hjá GR árið 1980 og lék þá í þrjú ár en síðan tók við hvíld í einn áratug. "Ég byrjaði að leika á ný árið 1993 en þá hafði ég verið að leika knattspyrnu með Fylki og Haukum. Núna er ég á kafi í golfinu sem kennari og hef ekki getað leikið mikið golf sjálfur en ég ætla að vera með á Íslandsmótinu í höggleik í Vestmannaeyjum og sjá hvar maður stendur," sagði Ólafur sem telur sig vera með um 0,6 í forgjöf þessa stundina. "Það var mikil barátta alla keppnisdagana og menn máttu ekki gera mörg mistök ef þeir ætluðu sér sigur, ætli ég hafi ekki gert fæst mistökin að þessu sinni."

Það var mál manna á Landsmótinu að þetta mót ætti að vera úti á landi þar sem keppendur dveldu á keppnisstaðnum alla dagana. Þórdís og Ólafur Hreinn voru einnig á þessari skoðun og töldu að Hella, Akureyri, Vestmannaeyjar og fleiri staðir væru ákjósanlegir fyrir þetta mót.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson