"ÞETTA var sætur sigur eftir ófarirnar hjá okkur fyrir norðan um daginn," sagði Finnur Kolbeinsson, fyrirliði Fylkis, eftir sigurinn á KA. "Þetta var allt annað hjá okkur núna en þá, mun meiri barátta og á allan hátt betri leikur.
"ÞETTA var sætur sigur eftir ófarirnar hjá okkur fyrir norðan um daginn," sagði Finnur Kolbeinsson, fyrirliði Fylkis, eftir sigurinn á KA.

"Þetta var allt annað hjá okkur núna en þá, mun meiri barátta og á allan hátt betri leikur. KA-menn eru erfiðir, þeir berjast vel og eru skipulagðir.

Við vorum staðráðnir í að gera betur en um daginn og komum vel stemmdir til leiks. KA-menn gerðu það greinilega líka og í stað þess að liðin væru með þreifingar var byrjað af fullum krafti.

Mér fannst við vera mun betri í fyrri hálfleik en leikurinn jafnaðist í þeim síðari."

Fylkir er eina liðið í deildinni sem hefur ekki tapað stigi á heimavelli í sumar. Markatalan þar er 11:2 en á útivelli er markatalan 2:4 og Fylkir er eina liðið sem hefur ekki unnið á útivelli.

"Það er gott að hafa ekki tapað stigi hér heima, þetta er góður heimavöllur og frábærir stuðningsmenn sem við höfum. Nú koma þrír útileikir í röð hjá okkur og við verðum hreinlega að fara að fá einhver stig á útivöllum og auðvitað líka að skora," sagði Finnur.