Þorvaldur M. Sigbjörnsson
Þorvaldur M. Sigbjörnsson
ÞESSI leikur var í sjálfu sér lítið öðruvísi en bikarleikurinn heima á Akureyri um daginn. Það vantaði bara mörkin," sagði Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, fyrirliði KA, eftir tapið fyrir Fylki í gærkvöld.
ÞESSI leikur var í sjálfu sér lítið öðruvísi en bikarleikurinn heima á Akureyri um daginn. Það vantaði bara mörkin," sagði Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, fyrirliði KA, eftir tapið fyrir Fylki í gærkvöld.

"Við gátum hreinlega ekkert í fyrri hálfleik en náðum að bæta leik okkar talsvert í síðari hálfleiknum og mér fannst við vera betri en Fylkismenn eftir hlé þó svo að þeir fengju eina og eina skyndisókn. Leikurinn byrjaði raunar fjörlega en miðjan hjá okkur virkaði engan veginn; við vorum allan fyrri hálfleikinn að elta boltann því honum var alltaf leikið yfir okkur eða framhjá okkur. Við náðum hreinlega engum takti fyrir hlé," sagði fyrirliðinn.

Spurður um hvort hann hefði viljað skipta á leikjum og fá stigin þrjú sem í boði voru í deildaleiknum í gærkvöldi sagði Þorvaldur: "Nei, ég held ekki. Deildin hefur bara þróast svona hjá okkur. Við erum með átta stig og erum alls ekki farnir að örvænta því við vitum að við eigum eftir að fá stig hér og hvar.

Við eigum leik inni en það þarf auðvitað að vinna hann, það er ekki hægt að reikna með að þar séu trygg þrjú stig. Síðan er erfið dagskrá fram undan hjá okkur, sex leikir á þremur vikum, og þar verðum við að ná í einhver stig. Annars er auðvitað það skemmtilegasta sem maður gerir að spila fótbolta og því fínt að fá leiki og fækka æfingunum aðeins."