BIRKIR Kristinsson, markvörður ÍBV, sagði eftir leikinn að úrslitin hefðu verið sanngjörn miðað við gang leiksins. "Kári var í stóru hlutverki í þessum leik.
BIRKIR Kristinsson, markvörður ÍBV, sagði eftir leikinn að úrslitin hefðu verið sanngjörn miðað við gang leiksins. "Kári var í stóru hlutverki í þessum leik. Við vorum nokkuð sáttir við að halda hreinu á móti rokinu í fyrri hálfleik og vonuðumst til þess að ná að setja eitt í þeim seinni, en það tókst ekki og ég held að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit og við verðum bara að sætta okkur við eitt stig."

Löngum þótt gott hjá KR að ná í stig til Eyja

"Mér fannst leikmenn beggja liða standa sig ótrúlega vel miðað við aðstæður," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, og bætti við að menn hefðu reynt að taka boltann niður og spila honum og það hefði tekist vel á köflum. "Það eru alltaf hörkuleikir þegar þessi lið mætast og menn berjast um alla bolta. Að þurfa líka að berjast við vindinn gerir þetta erfiðara fyrir leikmenn en þeir eiga hrós skilið fyrir að reyna að spila fótbolta."

Willum sagði að sér hefði þótt KR ívið sterkari í leiknum og ef sigurinn hefði átt að lenda öðrum hvorum megin hefði KR frekar átt skilið að sigra. "En þetta mót er bara svona, það þarf að berjast fyrir hverju einasta stigi í þessu og það hefur nú löngum þótt ágætt fyrir KR að sækja stig út í Eyjar þótt við hefðum að sjálfsögðu viljað sigur."