ÆÐSTU yfirmenn breska ríkisútvarpsins, BBC , lýstu því yfir eftir sérstakan fund sinn í gærkvöldi að þeir teldu harkalega gagnrýni, sem BBC hefur mátt sæta af hálfu stjórnvalda vegna fréttaflutnings í Íraksstríðinu, ekki eiga rétt á sér.
ÆÐSTU yfirmenn breska ríkisútvarpsins, BBC, lýstu því yfir eftir sérstakan fund sinn í gærkvöldi að þeir teldu harkalega gagnrýni, sem BBC hefur mátt sæta af hálfu stjórnvalda vegna fréttaflutnings í Íraksstríðinu, ekki eiga rétt á sér. Í dag er þess að vænta að þingnefnd, sem rannsakað hefur hvernig ríkisstjórn Tonys Blairs stóð að ákvörðuninni um að taka þátt í herförinni gegn Írak, kynni niðurstöður sínar.

Gavyn Davies, stjórnarformaður BBC, sagði eftir fundinn í gær að fréttastofa BBC hefði aldrei sakað Blair um að hafa logið að bresku þjóðinni eða leitt út í stríð á fölskum forsendum. Sagði hann að stjórnin "hafnaði algerlega" staðhæfingum Alistairs Campbells, almannatengslastjóra Blairs, sem hefur sagt að fréttaflutningur BBC á meðan á Íraksstríðinu stóð hafi einkennst af því að þar væru menn því andsnúnir. "Við förum fram á að Campbell dragi til baka þessar ásakanir um hlutdrægni á hendur BBC og fréttamönnum þess," sagði Davies.

Hefði mátt leita viðbragða

Telur stjórn BBC ekki neitt hafa verið athugavert við fréttaflutning stofnunarinnar á meðan stríðinu stóð en viðurkennir að í umdeildri fréttaskýringu Andrews Gilligans - sem deilan hefur raunar helst staðið um - hefði mátt leita viðbragða frá forsætisráðuneytinu áður en fréttinni var útvarpað.

Gilligan hafði í frétt sinni eftir ónafngreindum heimildarmanni úr bresku leyniþjónustunni að aðstoðarmenn Blairs hefðu umskrifað leyniskýrslu og sett í hana vafasamar fullyrðingar um að Írakar gætu beitt efna- og sýklavopnum aðeins fjörutíu og fimm mínútum eftir að skipun þar um hefði verið gefin.

Tessa Jowell, ráðherra menningarmála, hafði fyrr um daginn varað Greg Dyke, framkvæmdastjóra BBC, við því að "sökkva ekki enn dýpra í fenið" í þessari deilu. "BBC ber skylda til þess samkvæmt stjórnarskránni til að vera nákvæmt og til að vera hlutlaust í fréttaflutningi," sagði hún í sjónvarpsviðtali við David Frost. "BBC er ekki í stöðu til að fullyrða eitthvað nema það sé algerlega ljóst að umræddar fullyrðingar séu sannar."

Sagði Jowell að stjórn BBC yrði að viðurkenna að mistök hefðu verið gerð. Haft var eftir Blair sjálfum að ásakanirnar á hendur honum væru "eins alvarlegar og hugsast gæti".

London, Washington. AP, AFP.