ELÍAS Kristjánsson, forstjóri Kemís ehf., sem flytur inn sprengiefni til landsins, segist ánægður með viðbrögð dómsmálaráðherra varðandi geymslu sprengiefna í tengslum við innbrot í sprengiefnageymslu Ólafs Gíslasonar & Co. aðfaranótt föstudags.
ELÍAS Kristjánsson, forstjóri Kemís ehf., sem flytur inn sprengiefni til landsins, segist ánægður með viðbrögð dómsmálaráðherra varðandi geymslu sprengiefna í tengslum við innbrot í sprengiefnageymslu Ólafs Gíslasonar & Co. aðfaranótt föstudags. "Kemís ehf. fagnar því mjög að taka eigi þessi mál til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu," sagði Elías í samtali við Morgunblaðið í gær. Telur Elías að reglugerðin um meðferð og geymslu sprengiefna þarfnist endurskoðunar.

Sprengiefnageymsla Kemís ehf. stendur skammt frá geymslu Ólafs Gíslasonar & Co. við Rauðavatn. Hefur Kemís ehf. nú mannaða vakt við geymsluna. Að sögn Elíasar er ekkert því til fyrirstöðu að hafa að auki raftengda gæslu við sprengiefnageymslur.

Nokkrum sinnum hefur verið reynt að brjótast inn í geymslur Kemís ehf. og hafa þjófar komist þar inn. Segir Elías að hins vegar hafi engu sprengiefni verið stolið, enda hafi þjófarnir greinilega látið ginnast af rammgerðum læsingum geymslnanna frekar en því sem þar var að finna.

Engar eftirlitsmyndavélar eru við sprengiefnageymslurnar og engin mönnuð vakt var á svæðinu. Þjófarnir hafa því haft frið til að athafna sig. Ljóst er að þeir voru vel tækjum búnir, en bæði var notast við klippur og borvélar við þjófnaðinn. Þjófarnir stálu um 250 kg af sprengiefni og tekur efnið talsvert pláss. Þjófarnir hafa því þurft að vera á nokkuð stórum bíl, t.d. litlum sendiferðabíl.

Lögreglan í Reykjavík vinnur að rannsókn málsins, en hún hefur enn ekki skilað árangri. Lögreglan biður alla þá sem gætu haft einhverjar upplýsingar um hvar sprengiefnið sé niðurkomið að hafa samband hið fyrsta.