GANGI áætlanir eftir og framkvæmdir hefjist í haust er gert ráð fyrir að verslunarmiðstöð, hótel og 10 hæða fjölbýlishús með 40 íbúðum verði til staðar í miðbæ Akraness í nóvember 2005 og fjölbýlishús jafnstórt hinu nokkru síðar. Skagatorg ehf.
GANGI áætlanir eftir og framkvæmdir hefjist í haust er gert ráð fyrir að verslunarmiðstöð, hótel og 10 hæða fjölbýlishús með 40 íbúðum verði til staðar í miðbæ Akraness í nóvember 2005 og fjölbýlishús jafnstórt hinu nokkru síðar.

Skagatorg ehf., sem er í eigu Harðar Jónssonar, Gissurar og Pálma ehf. og Fjarðarmóta ehf., fékk úthlutað samtals um 12.000 fermetra lóðum á svonefndum miðbæjarreit á Akranesi og hefur sent nýtt deiliskipulag að þeim til skipulags- og umhverfisnefndar bæjarins. Á reitnum er gert ráð fyrir um 6.500 fermetra verslunarmiðstöð á jarðhæð átta hæða byggingar, 40 til 60 herbergja hóteli og skrifstofubyggingu þar fyrir ofan og til sitt hvorrar hliðar tveimur 10 hæða fjölbýlishúsum með alls 80 íbúðum auk þakíbúðar á hvorum turni.

Um 70% rýmisins frátekin

Björn S. Lárusson verkefnisstjóri segir að þróun svæðisins hafi verið í gangi undanfarin tvö ár en eigendur Skagatorgs hafi komið inn í málið fyrir ári. Hann segir að Akranes sé nánast eini stóri kaupstaður landsins, sem sé ekki með samþjappaða verslunarmiðstöð, en kaupmenn vilji taka þátt í verkefninu og nú þegar sé vilyrði fyrir útleigu á um 70% rýmisins. Hugmyndin sé að hafa eina verslun á hverju sviði í miðstöðinni og nefnir hann meðal annars matvörumarkað, fataverslun, lyfjaverslun, byggingavörumarkað og gjafavöruverslun auk þess sem Landsbanki Íslands verði með um 500 fermetra útibú.

Að sögn Björns er þörf fyrir aukið gistirými á Akranesi, ekki síst vegna fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls, en hún geti fjölgað íbúum Akraness um 500 til 700 manns. Mörg stór fyrirtæki á svæðinu hafi gjarnan þurft að beina viðskiptamönnum sínum til Reykjavíkur en með 40 til 60 herbergja hóteli sé komið til móts við eftirspurnina. Hótelið verði á þremur hæðum fyrir ofan verslunarmiðstöðina og skrifstofuhúsnæði á tveimur hæðum, en á efstu hæð byggingarinnar verði veitingastaður. Til stendur að vera með um 300 bílastæði og þar af helminginn neðanjarðar.

Íbúðirnar verða 90 til 110 fermetrar að stærð. "Við höldum því fram að þarna verði besta útsýnið yfir Faxaflóann," segir Björn. Verkið verður að mestu boðið út en Björn telur að ætla megi að 100 til 150 ársverk þurfi á hvoru framkvæmdaári til að sinna framkvæmdunum.