MIKIL þurrkatíð hefur ríkt á Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi undanfarna mánuði og helst það í hendur við óvenju snjóléttan vetur á láglendi. Þessi skortur á úrkomu er farinn að hafa neikvæð áhrif á grunnvatnsstöðu víða á norðvestanverðu landinu.
MIKIL þurrkatíð hefur ríkt á Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi undanfarna mánuði og helst það í hendur við óvenju snjóléttan vetur á láglendi. Þessi skortur á úrkomu er farinn að hafa neikvæð áhrif á grunnvatnsstöðu víða á norðvestanverðu landinu. Þannig er uggur í veitustjóra Skagafjarðarveitna yfir bágri stöðu í vatnslindum fyrir Sauðárkrók.

Að sögn Snorra Zophoníassonar, hjá Vatnamælingum, er þarna um að ræða samspil margra ólíkra þátta. "Grunnvatn fæðir lindir og þegar grunnvatnsstaða er lág eru lindir þurrar. Regnvatn fæðir ár og læki og eins snjór frá vetri sem bráðnar í leysingum. Leysingar fæða síðan jökulárnar. Ástandið núna er þannig að það er lítið í ám sem byggjast á lindavatni, en rennsli er víða gott í jökulám og ám sem eiga upptök sín á hálendinu, til dæmis er ágætt rennsli í Jökulsá Eystri í Skagafirði. Það var lítill snjór á láglendi og lágum heiðum í vetur, en óvenju mikill snjór á jöklum og uppi á hæsta hálendi.

Til þess að hafa gott ástand á grunnvatni þarf meiri snjó á veturna á láglendi sem svo bráðnar í apríl og maí og seytlar niður í grunnvatnsgeymana. Það virðist lækka fljótt í grunnvatnsgeymum ef ekki snjóar nóg á veturna."

Snorri segir ástandið í grunnvatnsstöðu verst á Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi. "Þar er lágt í grunnvatninu og lítið vatn í lindaám og dragám vegna snjóleysis í vetur. Það komu í raun engin vorflóð. Hins vegar er ekki lítið í jökulánum sem koma lengra ofan af hæsta hálendinu þar sem snjóaði mikið í vetur. Þetta helst síðan í hendur við mjög litlar rigningar undanfarið, til dæmis í Skagafirði og veldur mjög lágri grunnvatnsstöðu á þeim slóðum. Til þess að halda grunnvatnsgeymunum í góðu ástandi þarf jafna úrkomu og snjó á veturna til vorleysinga. Það heldur ástandi grunnvatnsins góðu. Grunnvatnsástandið ræðst ekki af úrkomu síðustu daga, heldur miðast staðan við úrkomu síðustu vikna og mánaða, jafnvel ára," segir Snorri.

Veitustjórinn bænheyrður?

Páll Pálsson, veitustjóri Skagafjarðarveitna, sem starfað hefur við veiturnar á þriðja áratug, segist ekki muna eftir jafn slæmri stöðu á lindunum fjórum er sjá Sauðárkróksbúum og nærsveitamönnum fyrir vatni. Lítill snjór sé til fjalla og dagamunur sé á þeim fáu sköflum sem sjáist við lindirnar, þeir séu nánast að hverfa. Páll segir mikla notkun hafa verið á vatni undanfarið þar sem mikið hefur verið gera í fisk- og rækjuvinnslu á Sauðárkróki, og verði vatnsstaðan lítið betri í haust þegar sláturtíð hefjist sjái menn hreinlega fram á mikinn vatnsskort.

"Við örvæntum ekki strax og vonumst eftir góðum rigningarköflum þegar sumarfríunum lýkur. Fljótlega eftir að ég greindi frá stöðunni núna í vikunni þá fór reyndar að hellirigna hér á Sauðárkróki. Ég fór því huldu höfði í gær og setti upp huliðshjálminn en sá þó að laxveiðikallarnir voru kátir. Hagsmunir okkar fara saman," segir Páll.