SPRENGJUDEILD Landhelgisgæslunnar hefur, frá 12. apríl, fundið og eytt yfir sjötíu virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæði Bandaríkjahers við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir. Meirihluti sprengnanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir.
SPRENGJUDEILD Landhelgisgæslunnar hefur, frá 12. apríl, fundið og eytt yfir sjötíu virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæði Bandaríkjahers við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir. Meirihluti sprengnanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir. Notaði herinn þetta svæði á árunum 1952-1960 til æfinga á skotárásum með sprengjuvörpum, fallbyssum, skriðdrekum og fleiri skotvopnum.

Samanlagt innihalda þær sprengjur sem Landhelgisgæslan hefur nú fundið um sextíu kíló af TNT og öðrum sprengiefnum.

Enn virkar og hættulegar

Árin 1986 og 1996 gerði varnarliðið umfangsmikla yfirborðsleit að sprengjum á þessu svæði og fundust þá alls 600 virkar sprengjur. Í kjölfar þess voru sett upp aðvörunarskilti á svæðinu sem verða væntanlega endurnýjuð á næstunni.

Vill Landhelgisgæslan brýna fyrir fólki að hernaðarsprengjur eru hannaðar til að bana fólki og eyðileggja eignir og eru sprengjurnar á Vogaheiði ekki frábrugðnar þeim að neinu leyti, þær eru virkar og jafnhættulegar og í upphafi.

Rétt viðbrögð þegar grunsamlegur hlutur finnst, eru að snerta ekki hlutinn, merkja staðinn, yfirgefa svæðið og láta síðan lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust.