NOKKUR erindi hafa borist Fjármálaeftirlitinu þar sem kvartað er yfir að viðskiptavinum sé ekki gerð nægilega skilmerkileg grein fyrir þóknunum og umsýslukostnaði vegna samninga um lífeyrissparnað. Halldór J.
NOKKUR erindi hafa borist Fjármálaeftirlitinu þar sem kvartað er yfir að viðskiptavinum sé ekki gerð nægilega skilmerkileg grein fyrir þóknunum og umsýslukostnaði vegna samninga um lífeyrissparnað. Halldór J. Kristjánsson, formaður Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir að í flestum tilfellum telji hann betra að fyrirtæki setji sjálf starfsreglur þótt upp kunni að koma tilvik þar sem nauðsynlegt sé að Fjármálaeftirlitið setji fastar reglur.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á laugardaginn hefur Fjármálaeftirlitið lagt fram umræðuskjal þar sem brýnt er fyrir fjármálastofnunum að gera viðskiptavinum sínum skilmerkilega grein fyrir þóknunum og umsýslukostnaði vegna samninga um lífeyrissparnað.

"Þetta umræðuskjal hefur ekki verið tekið til meðferðar á vettvangi stjórnar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Almennt hafa fjármálafyrirtækin tekið vel í og eru fylgjandi því að upplýsingagjöf til kaupenda fjármálaþjónustu sé sem skýrust. Við viljum skýrar leikreglur sem binda alla aðila, einnig þá sem stunda miðlun," segir Halldór.

Halldór telur að samræmdar reglur um þóknanir og umsýslukostnað vegna viðbótarlífeyrissamninga og söfnunarlíftrygginga væru til bóta. "Það er æskilegt að hafa samræmdar reglur um þetta. Ég hygg að það hafi komið fram tilvik þar sem þetta var ekki nógu skýrt við sölu," segir hann.

Halldór bendir á að í einhverjum tilvikum hafi fjármálafyrirtæki ákveðið að innheimta engar þóknanir vegna þessara samninga, sérstaklega ef um er að ræða viðskiptavini sem kaupa alla fjármálaþjónustu sína af sama aðilanum.