CAROLINA Klüft frá Svíþjóð setti í gær Norðurlandamet í sjöþraut kvenna þegar hún önglaði saman 6.692 stigum í Evrópubikarkeppni landsliða í fjölþrautum sem fram fór í Tallinn í Eistlandi. Fyrra metið átti hún sjálf, 6.
CAROLINA Klüft frá Svíþjóð setti í gær Norðurlandamet í sjöþraut kvenna þegar hún önglaði saman 6.692 stigum í Evrópubikarkeppni landsliða í fjölþrautum sem fram fór í Tallinn í Eistlandi. Fyrra metið átti hún sjálf, 6.602 stig en það met setti hún í Götzis í Austurríki í byrjun júní sl. Klüft er aðeins tvítug að aldri og vakti verðskuldaða athygli þegar hún vann gullverðlaun í sjöþraut á Evrópumeistaramótinu í München í Þýskalandi í fyrrasumar. Þeim árangri fylgdiu hún eftir með því að vinna fimmtarþraut kvenna á heimsmeistaramótinu innanhúss í Birmingham snemma á þessu ári.

Klüft sigraði örugglega í sjöþrautinni í Tallinn um helgina. Í öðru sæti varð ólympíumeistarinn Denise Lewis frá Bretlandi með 6.282 stig. Það er talsvert frá hennar besta en nægði Lewis til þess að tryggja sér farseðilinn á heimsmeistarmótið í París í ágúst nk. Þetta var fyrsta sjöþrautin sem Lewis nær að ljúka keppni í síðan hún varð ólympíumeistari í Sydney fyrir nærri þremur árum, en meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá henni frá þeim tíma.

Vilborg Jóhannsdóttir, UMSS, lauk keppni í sjöþraut í Maribor í Slóveníu í gær. Hún náði sér ekki á strik, að sögn Gísla Sigurðssonar þjálfara hennar, og fékk 4.650 stig sem er um 600 stigum frá 18 ára gömlu Íslandsmeti Birgittu Guðjónsdóttur, HSK. Jónas Hallgrímsson, FH, tók þátt í tugþraut á sama stað. Hann felldi byrjunarhæð í stangarstökki og þar með fór þrautin í vaskinn.