Englarnir í vinnunni: Cameron Diaz, Bernie Mac (sem aðstoðarmaðurinn Bosley), Lucy Liu og Drew Barrymore.
Englarnir í vinnunni: Cameron Diaz, Bernie Mac (sem aðstoðarmaðurinn Bosley), Lucy Liu og Drew Barrymore.
Leikstjórn: McG. Handrit: John August, Cormac og Marianne Wibberley. Aðalhlutverk: Cameron Diaz, Drew Barrymore, Lucy Liu, Demi Moore og Bernie Mac. Lengd: 100 mín. Bandaríkin. Columbia Pictures, 2003.
ENGLARNIR hans Kalla eru þrjár föngulegar konur í þjónustu ríkisins sem háttsettir stjórnmálamenn geta sótt til þegar heimurinn reynist standa á heljarþröm. Þær eru þannig síðasta úrræðið, til þeirra er leitað ef allt annað hefur brugðist. Þar skýtur reyndar skökku við, þar sem þessar annars efnilegu kvenhetjur reynast vera lítið annað en hugsunarlaus handbendi skipana, og virðast hafa það eitt fram að færa að geta (með aðstoð tölvuteiknara) svifið um loftin blá í draumkenndum karatespörkum. Þess á milli þeytast þær fram og aftur í fjarstæðukenndu handritinu og ramba jafnan á langsóttustu og hugmyndasnauðustu leiðirnar að lausn gátunnar. Ekki skyldi reyndar gleyma stinnum kroppum leikkvennanna þriggja, þeirra Cameron Diaz, Lucy Liu og Drew Barrymore (vel má vera að tölvuteiknarar komi þar einnig við sögu) sem eru mun veigameiri þáttur í framvindunni en handritið sem slíkt. Svo mikil áhersla er reyndar lögð á kroppasjónarspilið að í leikaraskrá ætti sérstaklega að geta afturhlutans á Cameron Diaz því hann er óneitanlega einn af burðarstólpum myndarinnar, líkt og forverans.

Óþarft er að reifa söguþráð Englar Kalla gefa í botn, aðstandendur myndarinnar hafa ekki veitt honum mikla athygli og því engin ástæða fyrir áhorfendur til þess að leggja sig eftir því að fá samhengi í það sem í eðli sínu er ekkert annað en samsetning óskyldra atriða sem ætlað er að skemmta áhorfendum á sömu forsendum og gert er í fjölleikahúsi. Enginn leitar eftir rökum þess að loftfimleikamennirnir koma á undan trúðunum en á eftir ljónatemjaranum, það skiptir einfaldlega engu máli.

Í tilraun sinni til að slá forveranum við, þ.e. hinum óvænta smelli Charlies Angels, og að standast ofurspennumyndum samtímans snúning, hafa aðstandendur algerlega gleymt sér í því að nostra við hvert matrix-innblásna hasaratriðið á fætur öðru. En þeir flaska á veigamiklu atriði, þó svo að The Matrix hafi gengið lengra en nokkur hasarmynd í að teygja og beygja lögmál tíma og rúms í hasaratriðum sínum, er þess ávallt gætt að halda til streitu einhverjum ímynduðum skýringum og þar með takmörkunum á því hversu langt persónan getur flogið hverju sinni. Í Englum Kalla II vantar alveg þetta skilyrta þyngdarafl, þar er þyngdarlögmálið hreinlega úr sögunni, herbílar jafnt sem persónur bókstaflega fljúga eins og ofurhetjur, og hefur áhorfandinn fyrir vikið enga tilfinningu fyrir því að einhver hætta steðji að hinum íturvöxnu hetjum myndarinnar.

Það hefði mátt ímynda sér skemmtilegri úrvinnslu á efniviði myndarinnar, en hugmyndin um njósnapæjurnar í þjónustu Charlies er sótt í bandaríska sjónvarpsþætti sem urðu vinsælir snemma á áttunda áratugi nýliðinnar aldar. Charlies Angels var reyndar ein sjónvarpsþáttaröð af mörgum á þessum tíma sem tefldi fram sterkum kvenhetjum, líkt og þættirnir um ofurkvendið (wonderwoman) og rafeindakonuna (bionic woman), og ef til vill var þetta sjónvarpsefni nokkurs konar (kannski dáldið útvötnuð) birtingarmynd kvenfrelsisvakningarinnar sem hófst undir lok sjöunda áratugarins. Í kvikmyndunum um Engla Kalla höfum við hins vegar kvenhetjur sem virðast ekki vera annars megnugar en að geta sparkað hátt þrátt fyrir að vera í mjög þröngum buxum.

Heiða Jóhannsdóttir