RÚMLEGA 1.100 manns voru á áhorfendapöllunum í Keflavík í gærkvöld þegar fram fór fyrsti grannaslagur Keflvíkinga og Njarðvíkinga í knattspyrnu. Njarðvíkingar, sem komu upp úr 2.

RÚMLEGA 1.100 manns voru á áhorfendapöllunum í Keflavík í gærkvöld þegar fram fór fyrsti grannaslagur Keflvíkinga og Njarðvíkinga í knattspyrnu. Njarðvíkingar, sem komu upp úr 2. deild, slógu hvergi af í byrjun og náðu forystu en þrautreyndir Keflvíkingar, sem spiluðu í efstu deild í fyrra, sýndu mátt sinn og megin með því að hafa síðari hálfleikinn algerlega í sínum höndum og sannfærandi 5:2 sigri. Með sigrinum komu Keflvíkingar sér enn betur fyrir á toppi deildarinnar og í næstu umferð mæta þeir Víkingum, sem eru í öðru sæti.

Keflvíkingar fengu ágæt færi áður en mínúta var liðin af leiknum. Það virtist rugla þá aðeins í ríminu, því þeir sýndu engan veginn hvað í þeim býr svo það voru gestirnir úr Njarðvík sem voru meira með boltann. Hvort lið fékk ágætt færi en Keflvíkingum brá síðan hressilega þegar Eyþór Guðnason skoraði fyrir Njarðvík á 17. mínútu er hann stökk hæst inni í markteig og skallaði inn aukaspyrnu Guðna Erlendssonar. Njarðvíkingar náðu ekki að fylgja því eftir og tök þeirra linuðust uns Keflvíkingar voru búnir að ná undirtökunum. Það skilaði síðan marki á 34. mínútu þegar Þórarinn Kristjánsson skallaði inn fyrirgjöf Magnúsar Sverris Þorsteinssonar, sem sjálfur bætti um betur mínútu síðar þegar hann smeygði sér í gegnum vörn Njarðvíkur til að koma Keflavík í 2:1. En Adam var ekki lengi í Paradís því í næstu sókn gestanna jafnaði Sverrir Þór Sverrison, 2:2.

Síðari hálfleikur var Keflavíkinga. Þeir höfðu öll tök á vellinum án þess að Njarðvíkingar fengju nokkuð að gert, frekar að þeir reyndu að sparka boltanum sem lengst í burtu en spila fram völlinn ef þeim tókst að stöðva sókn heimamanna. Fleiri mörk Keflvíkinga lágu því í loftinu og Þórarinn bætti við öðru sínu á 58. mínútu eftir að Magnús Sverrir hafði tætt vörn Njarðvíkinga í sig. Tíu mínútum síðar var Jónas Sævarsson á ferðinni þegar hann smeygði sér í gegnum vörn Njarðvíkur til að koma Keflavík í 4:2. Magnús Sverrir var ekki hættur og á síðustu sekúndum leiksins afgreiddi hann aðra hornspyrnu Keflvíkinga í röð með skalla og lokatölur 5:2.

"Við getum ekki valtað yfir Njarðvíkinga en náðum ekki að sýna okkar besta leik fyrr en eftir hlé þegar við náðum að spila okkar leik, það voru þrjú stig í boði og við ætluðum að taka þau," sagði Þórarinn eftir leikinn en hann átti góða spretti ásamt Magnúsi Sverri.

"Það hefur verið beðið eftir þessum leik síðan í fyrra og sérstaklega mikilspenna myndaðist fyrir nokkrum vikum. Það var gaman að sjá svona marga áhorfendur og þeir lögðu sitt af mörkum, ég er sáttur við þá enda okkar tólfti maður," sagði Þórarinn.

Bestur hjá Keflavík var Stefán Gíslason, sem fór með öll völd á miðjunni, en Haraldur Guðmundsson var sterkur í vörninni ásamt Kristjáni Jóhannssyni. Ómar Jóhannsson varði oft vel.

"Við ætluðum okkur þrjú stig eins og í öllum leikjum og það skipti engu máli að við vorum að spila við besta lið deildarinnar," sagði Sverrir Þór eftir leikinn. "Við spiluðum vel í byrjun og áttum að skora fleiri mörk fyrir hlé því við fengum til þess færin. Við komum síðan ekki með nóg sjálfstraust til síðari hálfleiks, sem gengur ekki gegn góðu liði eins og Keflavík, og fengum fljótlega á okkur slysalegt mark, þá datt botninn úr leik okkar," bætti Sverrir Þór við. Sverrir Þór, Eyþór, Snorri M. Jónsson og Sigurður B. Sigurðsson áttu góðan leik.

Stefán Stefánsson skrifar