DAVÍÐ Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að stofnunin sé þeirrar skoðunar að stækka eigi friðland Þjórsárvera.
DAVÍÐ Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að stofnunin sé þeirrar skoðunar að stækka eigi friðland Þjórsárvera. Hins vegar sé rétt að árétta að Umhverfisstofnun hafi einungis valdsvið til þess að stjórna þeim svæðum sem þegar hafi verið friðlýst af umhverfisráðherra en yfir öðrum svæðum hafi stofnunin ekki lögsögu.

Náttúruverndarsamtök Íslands sendu frá sér tilkynningu fyrir helgi þar sem óskað er eftir því við Umhverfisstofnun að hún geri grein fyrir afstöðu sinni hvað varðar hugmyndir um stækkun friðlendis í Þjórsárverum.

Í áliti Umhverfisstofnunar um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við Norðlingaölduveitu segir að stofnunin telji ekki að varanlegur skaði yrði á núverandi friðlandi við Þjórsárver vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda við Norðlingaöldu.

Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýndu álitið þar sem áður hefur komið fram að Umhverfisstofnun vill að friðlandið verði stækkað en ljóst er að hluti af því landi sem stofnunin vill að verði gert að friðlandi verður fyrir raski af völdum virkjunarframkvæmda sem heimilaðar hafa verið. Náttúruverndarfélagið telur að þannig sé Umhverfisstofnun í mótsögn við sjálfa sig. Umhverfisstofnun hefur hins vegar enga lögsögu á svæðum sem ekki hafa verið friðlýst, jafnvel þótt stofnunin mæli með slíkri friðlýsingu. Hlutverk hennar í málefnum ófriðlýstra svæða er því einungis ráðgefandi.

Ráðherra tekur ákvörðun um friðlýsingu svæða

Umhverfisráðherra tekur endanlega ákvörðun um friðlýsingu svæða.

"Þetta er nokkuð einfalt mál í sjálfu sér. Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun sem fer eftir stjórnsýslulögum og þeim reglum sem þar eru settar. Í 38. gr. laga um náttúruvernd segir að stofnunin hafi umsjón með friðlýstum svæðum. Úrskurður setts umhverfisráðherra heimilar ákveðna framkvæmd með skilyrðum og fyrsta atriðið hjá okkur er að meta hvort það hefði hugsanlega áhrif í friðlandinu og setja skilyrði til þess að tryggja að áhrifin nái ekki inn í það. Ef við hefðum talið að svo væri hefðum við þurft að veita leyfi samkvæmt lögunum. Ef það hefur ekki áhrif erum við umsagnaraðili þannig að við ákváðum að gefa umsögn um þetta. Hitt er svo annað mál að komið hafa fram hugmyndir um stækkun á friðlandinu og við erum fylgjandi því. Það þarf aftur á móti að ná samkomulagi við fjölmarga um slíka stækkun. Við höfum því ekki stjórnvald á því svæði á sama hátt og innan friðlandsins," segir Davíð.