ÁÆTLAÐ er að velta í iðnaði aukist um 4% í ár og yfir 10% á næsta ári en að raunvirði nemur aukningin 2% í ár og 8% 2004. Þetta kemur fram í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu í júní á stöðu og horfum í iðnaði.
ÁÆTLAÐ er að velta í iðnaði aukist um 4% í ár og yfir 10% á næsta ári en að raunvirði nemur aukningin 2% í ár og 8% 2004.

Þetta kemur fram í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu í júní á stöðu og horfum í iðnaði. Könnunin náði til 85 meðalstórra og stórra fyrirtækja í ýmsum greinum með samtals um 6.500 starfsmenn.

Fram kemur í könnuninni að áhrif að háu gengi krónunnar á afkomu iðnfyrirtækja er neikvæð þegar á heildina er litið. Áhrifin eru neikvæðust í lyfja- og hátækni, plast- og veiðarfæragerð og málm- og skipasmíðum vegna lakari samkeppnisstöðu á alþjóðlegum markaði. Mörg fyrirtæki í jarðvinnu, prenti og pappír og matvælum og drykkjaframleiðslu njóta hins vegar góðs af háu gengi sem léttir afborganir á erlendum lánum og lækkar innkaupaverð á erlendan varning. "Þó skiptast í tvö horn lítil og stór verktakafyrirtæki, en þau síðarnefndu eru í alþjóðlegri samkeppni og telja hágengið til hnjóðs. Ef gengið lækkar á ný munu áhrifin snúast við," segir í niðurstöðunum.

Áætlað er að fjárfesting aukist yfir 20% í ár, fyrst og fremst vegna mikillar aukningar í fjárfestingum í plast- og veiðarfæragerð og prent- og pappírsfyrirtækjum, en 7% á næsta ári. Að raunvirði nemur aukningin 21% í ár og 5% á næsta ári.

Á fyrri hluta ársins hefur starfsmönnum fjölgað um tæp 5% en áætlað er að hluti þeirrar aukningar gangi til baka með haustinu. Byggingarstarfsemi og jarðvinna útskýra mestan hluta aukningarinnar, en samdrátturinn framundan tengist fyrirtækjum í lyfjum og hátækni og plast- og veiðarfæragerð.