KIRKJUKLUKKUR St. Jósepskirkju á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði voru vígðar við hámessu á sunnudagsmorgun. Kaþólski biskupinn á Íslandi, herra Jóhannes Mattías Gijsen, vígði klukkurnar, þrjár að tölu.
KIRKJUKLUKKUR St. Jósepskirkju á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði voru vígðar við hámessu á sunnudagsmorgun. Kaþólski biskupinn á Íslandi, herra Jóhannes Mattías Gijsen, vígði klukkurnar, þrjár að tölu. Safnaðarfélagið hefur safnað fyrir klukkunum í mörg ár, en um þessar mundir á kirkjan 10 ára afmæli. Klukkurnar voru steyptar í Þýskalandi.

Að sögn séra Jakobs Rollands, sóknarprests á Jófríðarstöðum, voru viðstaddir gestir frá útlöndum, þar á meðal sóknarprestur frá vinasókn kirkjunnar í Berlín ásamt fleirum.

Einnig var fjölda manns hér á landi boðið til vígslunnar. Hún fór fram í miðri messunni, en að henni lokinni var klukkunum hringt í fyrsta sinn að lokinni Maríubæn.

Að kaþólskum sið hafa klukkurnar hlotið nafn og heita þær Trú, Von og Kærleikur.